Kauptrygging hækkar í fyrsta sinn frá árinu 2019 og lífeyrisréttindi sjómanna verða jöfnuð við það sem viðgengst á almennum vinnumarkaði. Þá byggir kjarasamningur stéttarfélaga sjómanna og útgerða, sem undirritaður var í gærkvöldi, á fjórum stoðum sem eru bætt réttindi og kjör, meira öryggi, aukið gagnsæi og traust og umbætur á samningi.
Þetta kemur fram í sameiginlegri kynningu samningsaðila á innihaldi kjarasamningsins, sem gildir í tíu ár.
Kauptrygging (lágmarkslaun) sjómanna hækka um 127.247 krónur á mánuði samkvæmt nýjum kjarasamningi sem undirritaður var í gærkvöldi. Er þetta fyrsta hækkun kauptryggingar frá árinu 2019. Flestir sjómenn eru með laun umfram þetta en kauptryggingin er grundvöllur tekna í tilfelli til að mynda veikinda.
Með samningnum verður yfirvélstjórum, skipstjórum og yfirstýrimönnum tryggðar 617.417 krónur á mánuði. Kauptrygging matsveina, fyrsta og annars vélstjóra, vélavarðar og bátsmanns, 2. stýrimanns og netamanns veða 535.723 krónur. Háseti verður með 454.027 króna kauptryggingu.
Tímakaup og álagsgreiðslur miða við kauptryggingu og hækkar það því einnig.
Mótframlag útgerðar í lífeyrissjóð hækkar um 3,5%, úr 8% í 11,5%. Þá fellur viðmið við heimsmarkaðsverð á olíu úr gildi og skiptaprósentan færð í 69,2%, en var 70%. Um er að ræða sérstakt baráttumál sjómanna sem hafa óskað eftir því að þeir njóti sömu lífeyrisréttinda og aðrir launþegar.
Þá er sjómönnum gefinn valkostinn að taka ekki við lífeyrisaukanum og velja þess í stað kaupauka þar sem mótframlag í lífeyrissjóð helst óbreytt og viðmið við heimsmarkaðsverð á olíu er fellt úr gildi, en skiptaprósentan hækkar þá í 70,5%.
Samningarnir gera ráð fyrir að í launauppgjöri verði tilgreint aflamagn og aflaverðmæti hverrar tegundar, tilgreining veiðiferðar, skipting í stærðarflokka og verð hvers flokks, skiptaprósenta, fjöldi í áhöfn og fjöldi lögskráningardaga.
Markmið þessara ákvæða er að auka gagnsæi og traust í launamálum sjómanna.
Jafnframt verður staðlaður fiskverðssamningur fyrir verð á uppsjávarfiski og gert upp á umsaminni prósentu milli útgerða og áhafna af áætluðu skilaverði afurða.
Kveðið er á um að sérstakir fundir fari fram milli útgerða, áhafna og stéttarfélaga við upphaf og lok vertíða. Þá er útgerðum gert að fara yfir söluhorfur afurða og væntanleg verð á vertíðinni við upphaf vertíðarinnar. Við lok vertíðarinnar á útgerð að skýra forsendur fyrir uppgjöri, sýna sölunótur afurða og tilkynna leiðréttingar, ef um þær er að ræða.
Lagt er upp með að fræðsla til trúnaðarmanna verði aukin og í ákveðnum tilvikum heimilt að kjósa tvo trúnaðarmenn.
Slysa- og veikindaréttur er lengdur í fjóra mánuði og er skipverjum tryggð staðgengilslaun í 60 daga á 120 daga tímabili.
Þá er gert ráð fyrir að komið veri á öryggisnefnd sem vinnur markvisst að málum er tengjast öryggi, heilsu og líðan á sjó með markmið um að fækka slysum á sjó og draga úr álagi.
Atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn lýkur 10. mars næstkomandi en hann nær til fjölda félaga, en kjarasamningurinn nær til: