„Líklega er hámarkslífmassi ekki besta einingin til að fylgja eftir áhættu erfðablöndunar . Betra er að nota stuðul sem er ekki jafn háður öðrum breytum svo sem fjölda útsettra fiska eins og gert er í Færeyjum, enda er það stærð sem er aðgengileg í skráningakerfi stöðvanna og er hægt að tengja beint inn í eftirlitskerfi Matvælastofnunar,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, í skriflegu svari við fyrirspurn vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar er varðar endurskoðun áhættumats erfðablöndunar.
Í stjórnsýsluúttekt sinni á sjókvíaeldi hér á landi vekur Ríkisendurskoðun athygli á að við endurmat áhættumats erfðablöndunar árið 2020 hafi verið talið forsvaranlegt að hækka til muna þann lífmassa sem forsvaranlegt er að hafa í sjó með tilliti til mögulegs fjölda strokulaxa.
„Stór hluti þeirrar aukningar kom til þar sem Hafrannsóknastofnun ákvað að notast við lífmassa í stað hámarksframleiðslu við útgáfu eins og gert var í fyrsta áhættumatinu. Við þessa breytingu ákvað Hafrannsóknastofnun að nota stuðullinn 0,8:1 sem þýðir um 800 tonn af framleiðslu á móti 1.000 tonnum af lífmassa. Var áhættumatið því uppfært til hækkunar sem þessu nam. Í skýringum Hafrannsóknastofnunar kom fram að við ákvörðun stuðulsins hefði verið horft til reynslu úr sjókvíaeldi hér á landi á síðustu árum. Reyndin er hins vegar sú að samkvæmt reynslu síðustu ára hefði stuðullinn fremur átt að vera nær 1:1,“ er fullyrt í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Við endurskoðun áhættumats erfðablöndunar 2020 óskaði atvinnuvegaráðuneytið eftir því að niðurstöður yrði miðaðar við lífmassa en ekki framleitt magn. Við gerð áhættumats var stuðst við gögn sem miða við fjölda strokufiska sem fall af framleiðslu, því þarf að nota hlutfallstuðul framleiðslu og hámarkslífmassa,“ segir Þorsteinn
Hann bendir hins vegar á að þegar Hafrannsóknastofnun var gert að endurskoða áhættumat erfðablöndunar hafi ekki verið til staðar gögn frá Matvælastofnun um hámarkslífmassa árin 2017 til 2019. „Því var úr nokkuð vöndu að ráða. Stuðullinn er ekki fasti heldur breytilegur milli fiskeldisfyrirtækja, og jafnvel milli svæða og tímabila innan sama fyrirtækis. Hann er háður ýmsum breytum, t.d. hita, stærð seiða við útsetningu, tímasetningu útsetningar, afföllum vegna veðurs, sjúkdóma o.fl.“
„Skoðaðar voru upplýsingar úr umhverfismatsskýrslum og upplýsinga aflað frá fyrirtækjum. Starfshópur stofnunarinnar komst að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma væri stuðullinn um 0,8 það er hlutfallið milli framleiðslu og lífmassa 8 á móti 10. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi með línulegum hætti eins og nú má sjá á Mælaborði fiskeldisins en vefsíðan var gerð eftir að áhættumatsskýrslan var unnin. Ef línan er framlengd til ársins 2019, en það er lokaár viðmiðunar matsins 2020, má áætla að gildið hafi verið 0,8 á árinu 2019,“ útskýrir hann.
„Taka verður til skoðunar hvort fjármögnun lögbundinna verkefna Hafrannsóknastofnunar þurfi að vera tryggari en nú er,“ segir í ábendingum Ríkisendurskoðunar. Er þar bent á meðal annars á að stofnunin þurfi að sækja um fjármagn í Umhverfissjóð sjókvíaeldis til að fjármagna lögbundin verkefni svo sem burðarþolsmat og vöktun á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis.
Þorsteinn segir Hafrannsóknastofnun taka undir þessi sjónarmið og að „fjármunir til lögbundinna verkefna Hafrannsóknastofnunar, þurfa á hverjum tíma, að vera tryggir og haldast í hendur við umfang þarfa og verkefna. Með því aukist bæði rekstraröryggi og fagleg geta til vöktunar og rannsókna sem leiði til bættrar þekkingar og ráðgjafar á viðkomandi sviðum og verkefnum.“
Þorsteinn segir fyrirkomulag fjármögnunar hafi hamlað framkvæmd vöktunar á lífrænu álagi sjókvíaeldis og bendir á að almennt hafi úthlutun Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til vöktunar og rannsókna verið lægri fjárhæð en það sem sótt hefur verið um ár hvert. Þá hafi fjármögnun og skortur á fyrirsjáanleika verið „stærsti vandinn við framkvæmd vöktunar á lífrænu álagi og rannsóknum.“
Ljóst er að það krefst „umtalsvert“ meira fjármagn en nú er ráðstafað til að sinna þessum verkefnum, að mati hans.
„Rétt er að taka má fram að Hafrannsóknastofnun sinnir vöktun á lífrænu álagi á fjarsvæðum sjókvíaeldissvæða en sjókvíaeldisfyrirtækjunum ber að vakta nærsvæði eldisins skv. starfsleyfum sínum frá Umhverfisstofnun. Nauðsynlegt er að vakta lífrænt og annað álag sem aukist getur fjarri eldissvæðum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef vart verður við rýrnun á gæðum umhverfis fjarða vegna sjókvíaeldis. Neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis á fjarsvæði myndu kalla á endurskoðun á burðarþolsmati svæðanna. Þá er mikilvægt að vakta vistkerfisleg áhrif sem hefur verið gert með vöktun og rannsóknum á botndýrum samhliða vöktun á lífrænu álagi,“ segir Þorsteinn.