Vel hefur gengið að stýra sókninni í takti við niðurskurð í útgefnum þorskkvóta ef litið er til hversu mikið af þorski hefur verið veitt á fiskveiðiárinu. Samkvæmt skráningu Fiskistofu hafði 90.311 tonnum af þorski verið landað á tímabilinu 1. september til 16. febrúar og er það tæpleg 55% af útgefnum aflaheimildum í tegundinni.
Tímabilið sem um ræðir er 168 dagar eða 46% af fiskveiðiárinu. Við fyrstu sýn kann það að virðast sem veitt hafi verið meira magn en liðið hefur á fiskveiðiárið, en ef tekið er tillit til hlé yfir hrygningartíma og síðar sumarstopp sést skýrt að um 45% er eftir af veiðidögum sem rímar vel við 74.772 tonna þorskkvóta sem eftir er.
Alls hafa 418 skip og bátar landað þorski það sem af er fiskveiðiári. Þar af hafa 227 bátar í krókaaflamarkskerfinu landað 16.584 tonnum af þorski og aflamarksskip 73.481 tonni. Auk þess hafa 32 bátar og skip landað 245 tonnum vegna sérstakrar úthlutunar eða frístundaveiða.
Sólbergið efst
Meðal aflamarksskipa hefur Sólberg ÓF-1 landað mestum þorskafla það sem af er fiskveiðiári, alls 2.771 tonn. Sólbergið hefur verið meðal aflamestu skipa íslenska fiskiskipaflotans og setti á síðasta almanaksári met í aflaverðmætum þegar landað var afla fyrir um sjö milljarða íslenskra króna.
Þétt á eftir Sólberginu fylgir Björg EA-7 með 2.764 tonn af þorski á fiskveiðiárinu. Þá hefur Kaldbakur EA-1 borið 2.463 tonn af þorski að landi, Drangey SK-2 2.447 tonn og Viðey RE-50 hefur landað 2.404 tonnum.
Sandfell og Hafrafell ofarlega
Meðal krókaaflamarksbáta er Sandfell SU-75 á toppnum með 769 tonn. Aðeins munar tveimur kílóum á Kristjáni HF-100 sem hefur landað 705,939 tonnum og Vigur SF-80 sem hefur landað 705,937 tonn. Þá hefur Hafrafell SU-65 borið rúm 698 tonn að landi og Indriði Kristins BA-751 hefur landað 665 tonnum af þorski.
Bátarnir Sandfell og Hafrafell eru báðir gerðir út af Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði og eru meðal aflasælustu krókabáta landsins og má gera ráð fyrir að þeir séu ofarlega, ef ekki í efstu sætum, þegar fiskveiðiárinu lýkur.