Loðnuveiði norskra uppsjávarskipa í íslenskri lögsögu á yfirstandandi vertíð er lokið og yfirgaf síðasta norska uppsjávarskipið íslenska lögsögu í morgun.
Norsku skipin náðu skipin öllum þeim 48.380 tonnum sem skipin voru með heimildir fyrir, en á síðustu vertíð misstu norsku skipin af 57 þúsund tonnum vegna þess að ekki tókst að veiða innan tímamarka og á því afmarkaða veiðisvæði þar sem þeim er heimilt að veiða samkvæmt samningum.
„Fiskiskipaflotinn er ánægður með samstarfið við Landhelgisgæslu Íslands og stjórnsýsluna (Fiskistofu). Hins vegar erum við óánægð með að norskir sjómenn búi við lakari kjör en allir aðrir sjómenn í íslenskri lögsögu. Bæði hvað varðar veiðarfæri, afmörkun veiðisvæðis og veiðitímabil,“ svarar Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtakanna Fiskebåt (eitt af samtökum norskra útgerða), spurður hvernig loðnuvertíðin hafi gengið hjá norsku skipunum.
„Þegar Ísland og Noregur koma sér saman um úthlutun og kvóta hefði Ísland ekki átt að setja hömlur sem koma í veg fyrir að veiði getur verið stunduð skynsamlega og með hámarks hagkvæmni. Íslenskum sjómönnum er ekki mismunað í norskri lögsögu,“ segir hann.
Maråk mótmælti því harðlega á síðustu vertíð að norsku skipin fengu ekki að veiða allan þann afla sem þau hefðu heimild fyrir. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hafnaði þá umleitanir Norðmanna um breytingar á fiskveiðisamningum ríkjanna.
Fram kemur á vef uppboðsmarkaðs uppsjávarfisks í Noregi (Norges Sildesalgslag) að loðnuafli norskra skipa hafi verið landað á Íslandi og í Færeyjum, en megnið hafi verið landað í Noregi. Jafnframt hafi meirihluti aflans verið unninn til manneldis.
Afurðastöðvarnar voru þó ekki allar sáttar með vertíðina og var meðal annars kvartað yfir því hve mikið var landað í Færeyjum þar sem fékkst betra verð. Í viðtali í Fiskeribladet í síðustu viku benti Geir Robin Hoddevik, framkvæmdastóri Global Fish, á að norskar afurðastöðvar hafi ekki getað boðið í afla færeyskra skipa með sama hæti og Færeyingar í afla norskra.
„Færeyjar hafa séð til þess að lagt er gjald á uppsjávarfisk þeirra sem landað er í Noregi. Þetta hefur í raun gert okkur ómögulegt að kaupa hráefni af færeyska flotanum. Á sama tíma geta norsk skip selt sinn fisk til Færeyja án þess að nokkrar takmarkanir eða gjöld séu til staðar af hálfu norskra yfirvalda,“ sagði Hoddevik.
Loðnuveiðum Norðmanna er þó hvergi lokið og hófst vertíðin í Barentshafi á sunnudag þegar skipið Piraja hóf veiðar, fyrst norskra uppsjávarskipa. Gert er ráð fyrir að sú vertíð verði komin á fullt í kringum mánaðarmótin þegar hrognafylling loðnunnar í Barentshafi er orðin ásættanleg.
Ráðgjöf norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, um hámarksveiði á loðnu í Barentshafi 2023 nemur 62 þúsund tonnum. Það er 8.000 tonnum minna en á síðasta ári.