Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir að ráðgjöf um hámarksafla á yfirstandandi loðnuvertíð hækki um að minnsta kosti hundrað þúsund tonn eftir að umtalsvert magn af hrygningarloðnu fannst á landgrunninu norður af Húnaflóa að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.
Þar segir að rannsóknaskipið Árni Friðriksson hafi dagana 12. til 21. febrúar sinnt mælingum á miðunum norðvestan við landið, en þar hafði hafís truflað mælingar í janúar síðastliðnum. Því kynnti Hafrannsóknastofnun endurskoðun á ráðgjöf í kjölfar vetrarmælingarinnar með fyrirvara.
„Endanlegar niðurstöður leiðangursins liggja ekki fyrir og ný veiðiráðgjöf verður því vart tilbúin fyrr en í byrjun næstu viku. Í ljósi þess að núna er langt liðið á loðnuvertíðina vill Hafrannsóknastofnun upplýsa að umtalsvert magn af hrygningarloðnu mældist á landgrunninu norður af Húnaflóa sem var ekki komið á mælisvæðið þegar fyrri mæling fór fram. Ljóst er að mælingar undanfarinna daga munu leiða til hækkunar á tillögum um hámarksafla á loðnuvertíðinni 2022/2023. Varlega áætlað má gera ráð fyrir yfir 100 þúsund tonna hækkun ráðlags hámarksafla,“ segir í tilkynningunni.
Leiðarlínur Árna Friðrikssonar 12.-21. febrúar ásamt dreifingu hafíss norðvestan við Ísland.
Mynd/Hafrannsóknastofnun
Loðnan sem mældist úti fyrir Húnaflóa var þriggja til fjögurra ára loðna sem komin var tiltölulega nálægt hrygningu og með tæplega 16% hrognafyllingu syðst en tæp 12% utar. „Það er mat Hafrannsóknastofnunar að þessi loðna muni líklegast hrygna á þessum slóðum.“
Leggur stofnunin til að dregið verði úr neikvæðum áhrifum veiða á nýliðun og leitast við að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni með því að afli sem nemur viðbótarráðgjöf verði veiddur sem mest á svæðinu sem úti fyrir Húnaflóa. „Með öðrum orðum, mælst er til þess að loðnuveiðarnar endurspegli á einhvern hátt dreifingu stofnsins eftir hrygningarsvæðum.“
Fréttin hefur verið uppfærð.