Sérstakt málþing um sjávarfang í Norður-Atlantshafi, North Atlantic Seafood Forum (NASF), hefst í Bergen í Noregi í dag. Er þetta 18. sinn sem málþingið fer fram og er um að ræða stærstu ráðstefnu fyrir æðstu stjórnendur fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskeldi á heimsvísu. Markmiðið með málþinginu er að veita þeim innsýn í helstu strauma á mörkuðum, svo sem í nýsköpun, viðskiptaþróun, fjármálum og efnahagsmálum.
„Það sem er sérstakt með þessa ráðstefnu er að þátttakendur eru æðstu stjórnendur fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskeldi. Þeir eru samankomnir á einn stað og eru aðgengilegir. Það er öðruvísi en til dæmis á sjávarútvegssýningunum í Barselóna eða Boston, því þar eru stjórnendurnir aðallega að hitta viðskiptavini sína. Þeir koma til Bergen til að hittast og ræða saman, hér eru einnig töluvert af fjárfestum, frumkvöðlum og fulltrúum alþjóðlegra ráðgjafar- og miðlunarfyrirtækja,“ sagði Andre Akse, framkvæmdastjóri NASF-málþingsins, i viðtali í síðasta blaði 200 mílna.
Andre Akse framkvæmdastjóri North Atlantic Seafood Forum
Ljósmynd/NASF
NASF sérstaklega hannað til að tengja saman stjórnendur og þá sem eru í framlínu þróunar greinanna, s.s. frumkvöðla og fjárfesta.
Fjöldi Íslendinga eru mættir til Bergen. Fulltrúar stærstu fiskeldisfyrirtækja Íslands eru á málþinginu, en auk þess eru meðal annars fulltrúar Arion banka og Marel svo einhverjir séu nefndir
Málþinginu lýkur á fimmtudag.