Ísfélag Vestmannaeyja hefur gert samkomulag við meirihlutaeiganda Ice Fish Farm, sem er eigandi fiskeldis á Austfjörðum, um kaup á um 16% hlut í félaginu. Er þetta gert samhliða hlutafjáraukningu í fiskeldisfyrirtækinu, en hlutur Ísfélagsins í viðskiptunum er metinn á tæplega 9 milljarða íslenskra króna og er fiskeldið þar með metið á tæplega 55 milljarða. Greint er frá viðskiptunum í tilkynningu til norsku kauphallarinnar.
Norska félagið Måsøval Eiendom AS hefur átt 56% hlut í Ice Fish Farm, en það hefur meðal annars keypt eldisfyrirtækin Fiskeldi Austfjarða og Laxa.
Samkvæmt tilkynningunni mun Måsøval Eiendom setja öll bréf sín í Ice Fish Farm í nýtt félag sem fær nafnið Austur Holding AS. Ísfélagið mun samhliða hlutafjáraukningu í Ice Fish Farm eignast 29,3% hlut í Austur, en fram kemur einnig að Austur muni eftir hlutafjáraukninguna áfram eiga 56% hlut í Ice Fish Farm.
Samtals á Måsøval Eiendom í dag 51.361.866 hluti í Ice Fish Farm. Ísfélagið mun eiga um 647 þúsund hluti í Austur og miðað við gengið 43 NOK á hlut í viðskiptunum er hlutur Ísfélagsins metinn á tæplega 9 milljarða. Heildarvirði Ice Fish Farm miðað við þetta gengi er hins vegar tæplega 55 milljarðar.
Viðskiptin áttu sér stað á gengi sem er 65% yfir dagslokagengi bréfanna í gær í kauphöllinni, þegar þau lokuðu í 26 NOK á hlut. Það sem af er degi hafa bréfin hækkað talsvert og standa nú í um 34 NOK á hlut.
Haft er eftir Einari Sigurðssyni, varaformanni stjórnar Ísfélagsins, í tilkynningunni að félagið sé ánægt að taka þessi skref inn í fiskeldisgeirann. Segir hann félagið hafa fylgst með vexti í greininni undanfarin ár og hafi trú á að áfram verði stöðugur vöxtur til margra ára.