„Við fengum gott kast í morgun um 10 mílur vestur af Hafnarleirnum og fylltum. Um borð eru komin rúm 2.900 tonn. Þennan afla fengum við í sex köstum,“ segir Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK, um loðnuveiðarnar í færslu á vef Síldarvinnslunnar.
Börkur var í morgun ásamt fjölda loðnuskipa á veiðum út af Reykjanesi, en einnig hefur verið veitt austur af Vestmannaeyjum síðustu daga.
„Hér eru öll skip að vinna og það er mikið að sjá af loðnu. Framhaldið lítur líka vel út. Það er nýtt efni að koma á þessar slóðir og svo eru einhverjar fréttir af vestangöngu. Það er sagt að það sé komin loðna í Víkurálinn. Veðurspáin framundan er hagstæð og það eykur líkurnar á því að kvótinn náist. Það er því full ástæða til bjartsýni. Þessi vertíð hefur verið einstaklega góð, mikið að sjá af loðnu og veðrið hagstætt. Þetta er miklu betri vertíð í alla staði en vertíðin í fyrra þó kvótinn sé minni. Það virðist einfaldlega mun meiri loðna vera á ferðinni núna,“ segir Hjörvar.
Beitir NK á loðnumiðum.
Ljósmynd/Ólafur Óskar Stefánsson
Fram kemur í færslunni að hrognavinnslan í Neskaupstað gangi vel og að nú sé verið að vinna hrogn úr Beiti NK. Gert er ráð fyrir að unnin verða hrogn úr Vilhelm Þorsteinssyni EA og Hákoni EA í framhaldinu, auk þess sem Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi,
Barði NK er nýkominn á miðin og fengu grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak góðan afla fyrir austan Vestmannaeyjar í gær en eru nú komin að Reykjanesi.