Verðmæti afurða úr eldi laxfiska og rækju á heimsvísu gæti hæglega tekið fram úr verðmætum svínakjöts og kjúklings. Þetta er mat Gorjan Nikolik, greinanda hjá Rabobank International til sautján ára.
Fram kom í erindi hans á málþinginu North Atlantic Seafood forum, sem fram fór í Bergen í Noregi í vikunni, að litlu munar á heildarverðmæti tegundanna og það þrátt fyrir að eldi þessara tegunda sé talsvert minna í umfangi en svína- og kjúklingarækt. Útilokað er að verðmætin fari fram úr nautakjöti á næstunni, að sögn Nikolik.
Benti hann á að verðmæti seldra svínaafurða dróst saman um 13,1% milli áranna 2021 og 2022, en jókst um 16,5% í tilfelli kjúklings. Þá jókst verðmæti rækjuafurða um 6,2% á sama tímabili en hafði milli 2020 og 2021 aukist um 19,8%. Sömu sögu er að segja í tilfelli eldi laxfiska sem skilaði 11,5% meiri verðmætum 2022 en 2021 og 21,3% meiri verðmætum 2021 en 2020.
Í erindi sínu skýrði Nikolik einnig frá helstu straumum í viðskiptum með sjávarafurðir á heimsvísu undanfarin ár og vakti mikla athygli að þegar talin eru upp þau ríki með mestan nettó útflutning sjávarafurða var Kína ekki meðal efstu tíu árið 2022.
Kína var um langt skeið efst á listanum, en fyrsta sætið vermdi hins vegar Noregur árið 2022. Þrátt fyrir að Ísland flytji nánast allt framleitt sjávarfang á erlenda markaði, dugar það ekki í magni eða verðmætum til þess að Ísland rati í efstu tíu sætin.
Noregur getur þakkað vaxandi verðmæti sem fást úr hverju kílói af eldislaxi en Ekvador stekkur upp í annað sæti vegna mikils vaxtar í rækjueldi þar í landi. Ekvador er ekki aðeins með einstaklega heppilegar aðstæður til slíks eldis, heldur er landið langt frá því að fullnýta þau svæði sem slík starfsemi getur fari fram á, að sögn Nikolik.
Í Síle hefur verið sterk laxeldisgrein um nokkurt skeið og er ríkið því ofarlega á listanum. Indland og Víetnam framleiða bæði nokkuð af veiddum sjávarafurum en þar er einnig umtalsvert rækju- og tilapíaeldi.