Hvorki lögreglan né Rannsóknarnefnd samgönguslysa vilja fullyrða neitt um það af hvaða flugvél brakið er sem áhöfnin á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK-255 fékk í trollið á miðvikudag. Með brakinu komu einnig upp líkamsleifar, stór hluti af höfuðkúpu, að sögn skipstjóra.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur fengið sendar myndir af brakinu en lögreglustjóri segir ekki tímabært að segja til um það úr hvaða vél brakið er.
„Klárlega eru menn að velta fyrir sér hvað er þarna er á ferðinni en við erum ekki komnir á þann stað að fullyrða eitt né neitt um það úr hvaða flugvél þetta brak er,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
„Nú bíðum við bara eftir því að brakið komi á land, svo verður þetta skoðað,“ bætir hann við, en skipið er væntanlegt til hafnar þann 22. mars næstkomandi.
Ekki talin þörf á flýta heimför
Kennslanefnd ríkislögreglustjóra mun rannsaka líkamsleifarnar þegar þær koma í land og rannsóknarnefnd samgönguslysa brakið úr vélinni.
„Okkur hefur verið tilkynnt um þetta og skoðum þetta bara þegar það kemur í land. Þá sjáum við hvert það leiðir okkur. Við viljum ekki leggja neitt mat á þetta fyrir það,“ segir Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa, spurður hvort liggi fyrir einhverjar hugmyndir af hvaða flugvél brakið er.
Skipið var á veiðum á Jökuldýpi, um 50 mílur vestur af Reykjanesi þegar brakið kom í veiðarfærin. Haft var samband við Landhelgisgæsluna og fékk áhöfnin fyrirmæli um varðveislu braksins og líkamsleifanna. Lögreglan taldi ekki þörf á því að skipið kæmi fyrr til hafnar vegna fundarins.