Óvænt náði togarinn Helga María AK stórufsa í miklu magni á Eldeyjarbanka í síðustu viku eftir að slíkur fiskur hafði ekki sést svo vikum skipti. „Við vorum að fá átta til tólf tonn af fimm til sjö kílóa ufsa í holi en yfirleitt toguðum við í tvo og hálfan og upp í fjóra og hálfan tíma í senn,“ segir Heimir Guðbjörnsson skipstjóri í færslu á vef Brims.
„Ég held að menn gerðu margt vitlausra en að grennslast fyrir um það með örmerkjum hvaðan stórufsinn kemur,“ segir Heimir.
Túrinn sem um ræðir hófst á Eldeyjarbanka og Fjöllunum. „Þar var þorskur, karfi og ýsa en stórufsinn var ekki mættur að ráði. Við fengum um tonn af ufsa á tímann en fréttir bárust þá af ágætri þorsk- og ýsuveiði með ufsa í bland á Tánni og Selvogsbankanum. Við fórum því þangað og fengum upp í þrjú tonn af stórufsa í holi með þorskinum og ýsunni. Þetta var þó skammgóður vermir og við hrökkluðumst í burtu í 20 m/sek og nístingsfrosti,” segir Heimir.
Bárust þá fréttir af góðri stórufsaveiði á Eldeyjarbankanum og var veiðin afburða góð eins og fyrr segir. „Þessi hrota er búin í bili en við bíðum rólegir eftir næstu gusu.“
Veiðin tregari nú
Rætt var við skipstjórann í gær en þá var skipið búið að landa og komið á veiðar á Belgableyðu, sunnan við Eldeyjarbanka. „Við erum á öðru holi og ufsaveiðin hefur tregast til muna. Við erum að fá um eitt tonn af stórufsa á togtímann og ætlum að halda okkur á þessum slóðum í von um að ufsaaflinn glæðist aftur.”
„Þetta verður stuttur túr hjá okkur. Við eigum að vera í höfn í Reykjavík snemma á föstudagsmorgun en það þýðir að við getum verið að veiðum næstu tvo sólarhringana. Það er hægara í dag en í langan tíma og vindurinn á enn að ganga niður á morgun,“ segir Heimir.