Íslendinar og Norðmenn deila enn um það hversu mikla hlutdeild Íslendingar eiga að hafa í makrílveiðum. Sjónarmið Norðmanna snýr í einföldu máli að því að makríllinn hafi villst inn í íslenska lögsögu. Þá deila þjóðirnar einnig um hlutdeild í loðnuveiðum.
Um þetta er fjallað í nýjasta hlaðvarpsþætti Loðnufrétta, þar sem rætt er við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þar er meðal annars rætt um umhverfi alþjóðasamninga í sjávarútvegi.
Í þættinum gefur Heiðrún Lind lítið fyrir það sjónarmið Norðmanna að Íslendingar hafi látið halla á hlut þeirra við veiðar á loðnu í íslenskri lögsögu. Norskir útgerðarmenn hafa sem kunnugt er farið hörðum orðum um veiðifyrirkomulag við íslandsstrendur þar sem þeim er einungis heimilt að veiða í nót og fram til 22. febrúar, áður en verðmætasta tímabili loðnunnar sé náð auk fjöldatakmarkana.
„Það eru áhöld um það hvort Norðmenn séu strandríki að íslenskri loðnu. Staða þeirra er ekki góð í loðnu,“ segir hún og bætir því við að hún eigi ekki eiga von á að staða þeirra muni styrkjast. Fram kemur að bæði Íslendingar og Grænlendingar vænta stærri hluta þegar núverandi samningur verður laus að tveimur vertíðum liðnum. Einnig segir Heiðrún Lind að íslenska ríkið þurfi að taka af skarið og klára samninga um Smuguna.
Heiðrún Lind fer í þættinum yfir samspil stjórnvalda og atvinnugreinarinnar við samningsborðið en þar segir hún meðal annars að umhverfi alþjóðasamninganna vera slæma nýtingu á tíma og að ferlið sé flókið. Að upplifa samningana sé ákveðið kúltúr sjokk þar sem að samtalið nái ekki á dýptina, tipplað sé á tánum í kringum málin og mikið sé um samtöl og fundi í bakherbergjum. Að hennar mati sér réttast að hleypa embættismönnum úr salnum og leyfa greininni að semja beint.
Hún tekur dæmi af því þegar samið var um kolmunna árið 2006 en þá var það fólk úr atvinnugreinum landanna sem tók af skarið og samdi nær án aðkomu embættismannanna. Í dag eru blikur á lofti með alþjóðasamninga Íslands við strandríki en í kjölfar innrásar Rússlands á Úkraínu hefur Smugusamningurinn ekki verið efndur, búið er að segja upp samningum Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiðar hér á Íslandi og illa hefur tekist að semja um makrílhlutdeild Íslendinga.
Aðspurð um fyrirkomulag veiðu norsku skipanna og fjölda skipa sem koma inn í íslenska landhelgi með oft á tíðum lítinn afla talaði Heiðrún einfaldlega um „flotann óseðjandi“.
„Auðvitað væri miklu hagkvæmara að hér kæmu færeysk skip sem myndu bara fylla sig og færu síðan aftur en það eru ótalmörg skip að taka tuttlu og tuttlu," segir hún og lýsir því þannig að tugir skipa komi frá Noregi með tilheyrandi olíuneyslu, óhagræði og óskilvirkni. Hún segir að þörf sé á meiri afla fyrir hvert skip svo veiðarnar verði hagkvæmar.
Aðspurð um yfirstandandi vertíð segir Heiðrún Lind að upphafsráðgjöfin hafi verið vonbrigði og flestir hafi gert ráð fyrir því að veidd yrðu yfir 500.000 tonn. Menn hafi spurt sig sig hvort rætt væri að haga þessu með öðrum hætti þar sem að loðnan fannst ekki því hún var undir ís við Grænland.
Hún segir þó að hún sjálf og SFS séu talsmenn þess að fylgja ráðgjöf Hafró en þegar setja átti svæðisskiptingu í þriðju viðbótarráðgjöfinni höfðu samtökin efnislega efasemdir um þá ákvörðun og forsendur þess að loðnan væri að fara að hrygna í Húnaflóanum. Hafró féll að lokum frá ráðleggingunni en Heiðrún Lind segir að hægt sé að draga lærdóm af þessu.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.
Leiðrétting: Vitlaust var farið með ártal á samning um kolmuna hér að ofan. Það hefur nú verið leiðrétt.