Ásta Dís Óladóttir telur vel þess virði að skoða hvort auka megi verðmæti íslenskra sjávarafurða enn frekar með samræmdu markaðsstarfi þvert á alla greinina, en þetta markaðsstarf gæti t.d. byggst á þáttum á borð við nýsköpun, sjálfbærni og uppruna, að því er fram kemur í viðtali við Ástu í síðasta blaði 200 mílna.
Hún veltir fyrir sér hvort hvort íslenskur fiskur sé að fá þá athygli og þann stall á alþjóðamarkaði sem honum ber. „Við þurfum einnig að velta því upp undir hvaða vörumerki við seljum próteingjafana okkar sem verða sífellt mikilvægari á tímum minnkandi fæðuöryggis í heiminum. Ásýnd, ímynd og vörumerki skipta miklu máli jafnt í sjávarútvegi sem og í öðrum greinum,“ segir Ásta.
Unnið hörðum höndum í frystihúsi Samherja á Dalvík. Íslenskur sjávarútvegur er í dag leiðandi á mörgum sviðum.
mbl.is/Sigurður Bogi
„Það velkist enginn í vafa um það hversu mikilvægur eldislaxinn er fyrir norskt efnahagslíf. Þannig sagði Erna Solberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, að eldislaxinn væri fyrsta flokks vörumerki fyrir Noreg sem fjölmiðlar ættu að halda á lofti og laxinn ætti að vera tákn Noregs rétt eins og IKEA væri tákn fyrir Svíþjóð. Því getum við Íslendingar velt því fyrir okkur hvert sé tákn íslands. Hér vantar okkur mikið, að sameinast um markaðssetningu á íslenskum afurðum.“
Á dögunum tók Ásta sæti í stjórn Samherja, en hún er einnig dósent við Viðskiptafræðideild HÍ og formaður stjórnar hjá Jafnvægisvoginni, Vísindasjóði HA, Viðskiptafræðistofnun HÍ, Félagi háskólakvenna og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Auk þess situr Ásta í í eftirlitsnefnd með framkvæmd lána með ríkisábyrgð vegna Covid 19.
Viðtalið við Ástu má lesa í heild sinni í blaði 200 mílna.