Erla Ásmundsdóttir lét langþráðan draum um að fara á sjó rætast á síðasta ári og starfar nú sem kokkur á togaranum Helgu Maríu RE-1 sem Brim gerir út. Hún segir reynsluna af sjómennsku hingað til algjört ævintýri, en minnir á að það sé jafnframt mikilvægt að gera sér dagamun á sjó og heldur því alltaf „fancy friday“ um borð, að því er fram kemur í blaði 200 mílna.
„Þetta var í raun mjög óvænt og ekki fyrirframákveðið. Ég er fædd og uppalin í Eyjum og ég viðurkenni að það hefur verið draumur í mörg ár að prufa að fara á sjó. Mig hefur langað þetta en einhvern veginn aldrei látið af því verða fyrr. Í fyrra fékk ég símtal frá vinkonu minni sem spurði hvort ég vildi prófa þetta,“ útskýrir Erla spurð hvernig það kom til að hún hóf sjómennsku.
Hátíðlegir föstudagar
Túrarnir eru sex dagar í senn og svo af og til fjögurra daga stubbatúrar, að sögn Erlu sem kveðst ekki sjá eftir að hafa stigið um borð. „Vinnan sem slík er kannski ekki rosalega erfið en aðstæðurnar gera þetta erfitt. Tala nú ekki um þegar er bræla. Einhvern veginn virðast strákarnir alltaf vilja djúpsteiktar franskar þegar er bræla en ég er ekki alveg til í að vera að djúpsteikja í mikilli brælu,“ segir Erla og hlær.
Og er áhöfnin sátt með kokkinn? „Þeir þora náttúrlega ekki að segja annað,“ svarar Erla snöggt og flissar.
Kjólar eru orðnir nokkuð stór þáttur í að halda uppi jákvæðum anda um borð, en verður að segjast nokkuð óvenjulegt athæfi um borð í íslenskum togara. „Það er alltaf „fancy friday“ á föstudögum og þeir eru orðnir vanir því hér um borð að ég sé reglulega í kjól og kippa sér ekkert upp við það lengur.“
Áhöfnin lét ekki á sér standa og klæddi sig upp í kjóla með Erlu í hennar árlegu hefð „kjólum fram að jólum“. Ekki verður annað séð en að létt hafi verið yfir öllum.
Ljósmynd/Aðsend
Kjólanotkunin vakti vissulega nokkra undrun skipverjanna í byrjun viðurkennir Erla, en þetta á sér allt eðlilega skýringu fullvissar hún blaðamann um. „Ég á sem sagt afmæli 25. nóvember og hef gert það í nokkur ár að vera alltaf í kjólum fram að jólum. Ég klæðist sem sagt kjól á afmælisdaginn og er alltaf í nýjum kjól á hverjum degi alveg fram á aðfangadag.“
Á hverjum degi fram að jólum var síðan tekin mynd af Erlu í kjól á sjó. „Fyrir síðustu kjólamyndina sem tekin var um borð fyrir síðustu jól kom ég fimm eða sex körlum í kjól af mér. Þeir fóru í kjólana fyrir myndatöku og reyndar dönsuðu aðeins, þeir fengu að njóta sín í smá stund.“
Viðtalið við Erlu má lesa í heild sinni í blaði 200 mílna.