Starfsmaður hvalaskoðunarfélagsins Eldingar lenti í því hræðilega óláni að missa fingur þegar hann var við störf í Reykjavíkurhöfn.
Slysið átti sér stað 11. júlí á síðasta ári þegar starfsmaðurinn var að fara um borð í hvalaskoðunarbátinn Hafsúluna til að landtengja hana eftir að hún lagði við bryggju, en starfsmaðurinn var sjálfur skipstjóri á öðrum bát og á leið í aðra ferð.
Í atvikaskýrslu siglingasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir: „Sjávarstaðan var það lág að lunningin var um metra neðar en bryggjukanturinn. Til að komast um borð steig starfsmaðurinn ofan á bakborðs lunninguna með vinstri fæti og síðan hægri fæti ofan á gönguhliðið í lunningunni. Við það opnaðist gönguhliðið honum að óvörum og voru viðbrögð hans við því að stökkva niður á þilfarið. Hringur sem hann var með á baugfingri vinstri handar festist í þakkanti sem hann hafði haldið sér í til stuðnings. Við fallið skarst baugfingurinn af hendinni.“
Fram kemur að ekki hafi tekist að bjarga fingrinum.
Benda á mikilvægi landganga
Við rannsókn nefndarinnar kom fram að gönguhliðið í lunningunni hafði ekki verið skálkað í samræmi við vinnureglur, en boltinn í skálkubúnaðinum fyrir gönguhliðið var aðeins boginn í endann og því stíft að færa hann til, en þó gerlegt án átaka.
Gönguleiðin sem um ræðir var einungis ætluð skipverjum en önnur leið var fyrir farþega. Vekur nefndin athygli á að hvorki var settur upp landgangur eða öryggisnet fyrir skipverja til að komast um borð né handrið til að halda sér í.
„Orsök slyssins var sú að landgangur var ekki notaður. Nefndin bendir á að mikilvægi þess að skipverjar noti ávallt örugga landganga þegar þeir fara að og frá borði,“ segir í nefndaráliti vegna málsins.