Á tíunda tímanum í gær var Björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað boðað til sjúkraflutnings frá Mjóafirði vegna veikinda íbúa, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg. Þurfti viðkomandi að komast undir læknishendur en Mjófjarðarheiði er enn ófær og því ekki unnt að flytja einstaklinginn frá Mjóafirði á umdæmissjúkrahús Austurlands öðruvísi en sjóleiðina.
Í tilkynningunni er vakin athygli á að á vetrarmánuðunum er sjóleiðin eini öruggi samgöngumátinn til og frá firðinum og því kemur fyrir að sjóbjörgunarskip sinni slíkum verkefnum.
Hafbjörg við bryggju í Mjóafirði.
Ljósmynd/Landsbjörg
Boðun barst sjálfboðaliðum Björgunarsveitarinnar Gerpis sem manna Hafbjörgun kl. 9.33. Lagði Hafbjörg úr höfn mönnuð fimm áhafnarmeðlimum ásamt einum sjúkraflutningamanni. Veður var með eindæmum gott þrátt fyrir að væri lágskýjað og nokkrar þokuleiðingar á útnesjum austfjarða. Kom skipið til Mjóafjarðar kl. 10.15, búið var um sjúklinginn til flutnings og komið aftur í Neskaupstað kl. 11.21.
Áhöfn Hafbjargar fór síðan og fyllti á olíutanka skipsins og tóku almenn þrif, sem lokið var kl. 12.00. Höfðu því þessi fimm sjálfboðaliðar sinnt samanlagt rúmlega 12 klukkustunda vinnu þennan sunnudagsmorgun.
Bjarni Guðmundsson sinnti hlutverki skipstjóra Hafbjargar.
Ljósmynd/Landsbjörg
„Nokkuð álag hefur verið á áhöfn Björgunarskipsins Hafbjargar undanfarið enda var skipið notað nánast allan tímann sem ofanflóðahætta stóð yfir á dögunum til að flytja björgunarfólk og aðra örugglega á milli bæjarhluta, enda hægt að leggjast að bryggju sitthvoru megin við hluta snjóflóðahættusvæðis í Neskaupstað,“ segir í tilkynningunni.
Hafbjörg er rúmlega 14 metra langt skip sem smíðað var árið 1996 í Svíþjóð og er vel útbúið til lengri veru um borð og sjúkraflutninga.
Veður var með eindæmum gott til siglinga.
Ljósmynd/Landsbjörg