Fiskisjúkdómanefnd samþykkti á síðasta fundi sínum að mæla með því að eldislax í sjókvíum á tveimur svæðum í Arnarfirði og einu svæði í Patreksfirði yrði meðhöndlaður með lyfjum gegn laxalús. Ekki hafa verið birtar upplýsingar um útbreiðslu laxalúsa í íslensku sjókvíaeldi frá því í desember 2022.
Í fundargerð fiskisjúkdómanefndar frá 26. maí síðastliðnum kemur fram að nefndin hafi mælt með því að samþykkt yrði umsókn um leyfi til lúsameðhöndlunar á eldislaxi með lyfinu Alphamax (Deltamethrin) í sjókvíum í Kvígindisdal í Patreksfirði. Einnig var mælt með beitingu lyfsins Alphamax (Deltamethrin) í Hvestu í Arnarfirði og var mælt með samþykkt umsóknar um beitingu Salmosan (Azamethiphos) á Tjaldanesi, sem er einnig í Arnarfirði.
Hafði áður verið tekin til umfjöllunar umsókn um beitingu lyfja á Tjaldanesi en fiskisjúkdómanefnd lagðist gegn samþykkt hennar. Þá segir í fundargerð frá 17. maí: „Að mati nefndarinnar er sjúkdómsstaða eldisfisks á umræddu eldissvæði ekki þannig vaxin að ástæða sé til lyfjameðhöndlunar að sinni. Nefndin leggur áherslu á að áfram verði fylgst með fjölda sníkjudýra á eldissvæðinu með vikulegum talningum og gripið verði til viðeigandi ráðstafana ef svo ber undir.“
Tekið var í notkun mælaborð fiskeldis á vef Matvælastofnunar (MAST) í apríl 2021. Mælaborðinu var ætlað að geyma allar helstu upplýsingar um eldi hér á landi, hvort sem um er að ræða í sjó eða á landi. Markmiðið var að auka gagnsæi með því að birta upplýsingarnar á einum stað.
„Þessi birting tryggir um leið heildstæðari yfirsýn yfir stöðu og þróun greinarinnar, sem er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigandi,“ var haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, við opnun mælaborðsins.
Eitt þeirra atriða sem þar hefur átt að birta hefur verið útbreiðsla laxalúsa á fiskum í sjókvíum við Íslandsstrendur. Hefur verið birt meðaltal kvenlúsa á fiski í hverjum mánuði allt frá janúar 2020. Alla jafna hefur lús ekki verið talin mánuðina febrúar til apríl þar sem hún á erfitt til uppdráttar í köldum sjó yfir vetrarmánuðina, en frá desember 2022 hafa engar upplýsingar um þróun lúsasmits verið birtar í mælaborðinu.
Mikil fjölgun laxalúsa átti sér stað í Dýrafirði haustið 2022 en var talin innan marka þar sem til stóð að slátra þeim fiski sem var að finna í kvíunum. Í desember voru taldar 9,22 kvenlýs á hverjum fiski í firðinum, en aldrei hafa verið taldar fleiri lýs á fiski í íslensku laxeldi, svo vitað sé.