Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur gert samkomulag við Carbon to Sea Initiative um að skoða kosti þess að setja upp rannsóknarstöð á Íslandi til að prófa nýja aðferð við föngun og bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Þar segir að meðal bakhjarla verkefnins er sjóður stofnaður af fyrrverandi tæknistjóra Facebook og að verkefnið hefur þegar fengið jafnvirði um 7 milljarða í styrki, en Carbon to Sea Initiative er alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarverkefni sem er kostað af nokkrum stórum alþjóðlegum styrktarsjóðum.
„Aðferðin sem ætlunin er að rannsaka kallast OAE (Ocean Alkalinity Enhancement) og snýst um að magna upp náttúrulegt veðrunarferli sem á sér stað þegar basískt berg berst með ferskvatni í hafið og setur af stað efnahvörf sem fanga koltvísýring (CO2) úr andrúmsloftinu. Aðferðin mun umbreyta koltvísýringnum og geyma á öruggan hátt í efnasamsetningu hafsins. Þetta náttúrulega veðrunarferli er ástæðan fyrir því að hafið er nú þegar langstærsti kolefnisgeymir veraldar en vísindafólk telur hægt að virkja hafið mun meira í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er OAE-ferlið ein möguleg leið sem er til skoðunar,“ segir í tilkynningunni.
„Einnig er líklegt að OAE-ferlið hafi jákvæð staðbundin áhrif sem vinna á móti súrnun sjávar. Hins vegar er mörgum spurningum enn ósvarað áður en hægt er að beita aðferðinni á stórum skala og þar kemur rannsóknar- og þróunarverkefnið á Íslandi til sögunnar.“
Gert er ráð fyrir að rannsóknir á fyrrnefndu OAE-ferli skili einnig aukinni þekkingu á hafinu umhverfis Ísland.
„Rannsóknastöðin á Íslandi yrði mikilvægur hlekkur í keðju rannsóknastöðva í Norður-Atlantshafinu þar sem vísindafólk gæti framkvæmt vettvangsrannsóknir og skorið úr um hvort OAE sé skilvirk, örugg og varanleg leið til að fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu. Líklegt er að slíkar rannsóknir myndu auka þekkinguna á hafinu umhverfis Íslands umtalsvert, sérstaklega á strandsvæðum og í fjörðum,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur Transition Labs unnið undirbúningsvinnu og ítarlega staðarvalsgreiningu til að finna þá staði á Íslandi sem gætu hentað rannsóknunum best, en næstu skref eru samtöl við nærsamfélög og hagsmunaaðila til að kanna áhuga að fá slíka rannsóknastöð í nærumhverfi sitt.
„Ísland á mikið undir því að hafið sé við góða heilsu. Carbon to Sea Initiative rannsóknarverkefnið hefur styrkt hóp af fremsta hafvísindafólki heims til þess að komast að því hvort OAE sé ein af þeim lausnum sem við þurfum til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum. Við teljum að það séu mikil tækifæri í því fyrir Ísland að taka þátt í þessum rannsóknum, bæði vegna þekkingarinnar sem mun myndast á íslenskum strandsjávarkerfum við rannsóknirnar en einnig vegna tækifærisins sem felst í því að vera í framlínu tækniþróunar á sviði loftslagslausna,“ segir Jóhann Þorvaldur Bergþórsson, verkefnastjóri hjá Transition Labs.
„Til að vinna gegn hlýnun jarðar þá þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auk þess fjarlægja gífurlegt magn af kolefni úr andrúmsloftinu. Sú aðferð sem nefnist OAE lofar mjög góðu en ýmsum spurningum er enn ósvarað. Það er frábært að taka þátt í því að skapa forsendur þess að hægt sé að rannsaka aðferðina í þaula svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að beita henni á stórum skala,“ segir Davíð Helgason, stofnandi Transition Labs.