„Á sjónum fékk ég útrás fyrir mína miklu orku, sem þar beindist í réttan farveg en ég var afskaplega virkur sem barn og unglingur, fremur ódæll. Ég var heppinn að komast svo ungur á sjó, það er ekki eins auðvelt nú á dögum. Ég man hvað mamma varð ánægð með að þar komst ég á rétta braut sem ég hef fylgt síðan,“ sagði Baldur Reynir Hauksson á Þórshöfn, kíminn á svip.
Rætt var við Baldur Reyni í tilefni af sjómanandeginum 3. júní og birt viðtal í sjómannadagsblaði 200 mílna, en hann er skipstjóri á Litlanesi ÞH-3 sem Ísfélag Vestmannaeyja gerir út frá Þórshöfn.
Baldur er rúmlega fimmtugur, fæddur og uppalinn í Grindavík og segir að hugur sinn hafi alltaf stefnt á sjóinn. „Sjómennska mín hófst snögglega og fyrirvaralaust um sextán ára aldurinn. Bróðir minn var á bátnum Hópsnesi hjá Jens Óskarssyni en ég var að salta niður fisk hjá Þorbirni í Grindavík þegar „kallinn“ kom og náði í mig, eftir það varð ekki aftur snúið,“ sagði Baldur en kallinn var skipstjórinn á Hópsnesi sem hefur líklega talið gott sjómannsefni í Baldri, eins og bróður hans.
Á sjómannsferli Baldurs hefur eitt og annað komið upp á. Hann rifjar upp atvik frá því hann var átján ára á litlum 10 tonna bát austan við Grindavík. „Við vorum að draga netin og fengum í skrúfuna, það var ágætis veður en feiknamikið brim. Búið var að senda björgunarsveitir bæði land- og sjóleiðina en þetta slapp til því Víkurbergið sem var að koma að austan náði okkur í tog rétt áður en báturinn barst upp í brotin og dró okkur til Grindavíkur.“
Það er ekki sjálfgefið að sjómenn geti alltaf fylgt takti fjölskyldunnar í landi. Á sjónum eru þeir hins vegar alltaf viðbúnir að bregðast fljótt við þó þreyttir séu. Baldur nefnir skondið atvik frá fæðingardeildinni en það lýsir vel hve sjómennskan er honum í blóð borin.
„Ég var nýkominn af sjó, mjög þreyttur eftir mikla törn og konan komin á fæðingardeildina, önnur dóttirin var á leið í heiminn. Frúin fór inn með ljósmóðurinni og það leið smátími þar til nokkuð gerðist og ég sofnaði í biðherberginu á meðan. En svo fór allt á fullt, fæðingin að fara í gang og hjúkrunarfólkið kom að vekja mig en tókst það ekki. Ljósan sagði konunni að það væri bara ekki mögulegt að vekja manninn en frúin var á öðru máli, „jú jú, prófaðu bara að gala á hann RÆS!“ Hún hafði rétt fyrir sér því faðirinn spratt upp eins og fjöður við þetta kunnuglega kall, fór inn og tók á móti barninu.
Viðtalið við BAldur Reyni má lesa í síðasta blaði 200 mílna.