„Makrílvertíðin er þannig séð í startholunum. Okkar skip fóru út aðfarnótt laugardags og eru núna að leita við Sauðausturland. Þeir hafa ekkert bitastætt séð ennþá en finna vonandi eitthvað í veiðanlegu magni. Hef heyrt að einhverjar útgerðir séu að senda sín skip af stað núna í vikunni,“ segir Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa hjá Brim.
Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til að ekki verði veitt meira en 782.066 tonn og hafa íslensk stjórnvöld úthlutað 129 þúsund tonna kvóta í samræmi við tilkall Íslands til 16,4% af ráðlögðum hámarksafla. Skipin hafa þó veiðiheimildir fyrir 143.767 tonnum vegna ónýttra heimilda á síðasta ári.
Íslensku skipin þurftu að sigla langt til að ná makrílnum á síðasta ári sem hafði í för með sér verulegan kostnað vegna hás olíuverðs. Spurður hvort væntingar séu til þess að gangi betur eða verr í ár að ná makrílnum svarar Ingimundur: „Við veiddum mest allt í fyrra í Smugunni og það gæti alveg orðið þannig í ár. En þetta veit maður ekkert fyrr en eftir á.“
Venus NS er ásamt Víkingi AK í leit að makríl.
mbl.is/Börkur Kjartansson
Ómögulegt að hafa áhygjur
Nokkur samdráttur hefur verið í útgáfu aflaheimidla í makríl á undanförnum árum, þetta telur Ingimundur ekki áhyggjuefni. „Sveiflur i úthlutun í uppsjávarfiski eru vel þekktar og ómögulegt að hafa endalaust áhyggjur af því.“
Sem fyrr segir er makrílvertíðin rétt að byrja og hefur viðhaldi verið sinnt um borð í mörgum uppsjávarskipum eftir velheppnaðar kolmunnaveiðar í vor. Var meðal annars Huginn VE og Beitir NK teknir í slipp á Akureyri, en Hoffell SU verið við bryggju á Fáskrúðsfirði frá því um miðjan maí.
Huginn VE tekinn í slipp á Akureyri í maí og síðan Beitir NK.
mbl.is/Þorgeir Baldursson