Aðgerðasinninn Paul Watson segir tímabundið bann við veiðum langreyða vera góðar fréttir. Hann er á leið til landsins ásamt áhöfn sinni á skipinu John Paul DeJoria og var tilgangurinn sá að hindra veiðar Hvals hf.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að stöðva veiðar á langreyðum tímabundið eða fram til 31. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Paul Watson, sem var á leið hingað til lands ásamt sjálfboðaliðum í þeim tilgangi að stöðva hvalveiðar, segir þetta vera góðar fréttir. Hann muni sigla skipi sínu að næsta leiðarpunkti, sem staðsettur er rétt fyrir utan landhelgina, og bíða staðfestingar á málinu á þar. „Ef þetta fæst staðfest þá fögnum við því innilega," segir Watson.
Ekki fengust upplýsingar um hvað Watson hyggðist gera næst eða hvort hann myndi snúa skipi sínu við.
Það var baráttuhugur í Watson þegar mbl.is talaði við hann í síma skömmu áður en tilkynnt var um hvalveiðibannið. Var skip Watsons, John Paul DeJoria, þá staðsett um 100 mílum frá Reykjavík og átti um það bil tólf tíma ferðalag eftir.
Þá sagðist Watson ekki hafa fengið nein viðbrögð frá Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf., vegna fyrirætlana sinna. Ekki hafði hann heldur fengið nein svör eða viðbrögð frá alþingismönnum, en þeim sendi hann bréf þann 18. maí þar sem hann boðaði komu sína.
Sagði Watson við mbl.is að ætlun sín og áhafnarinnar um borð John Paul DeJoria væri að bjarga lífi eins margra hvala og þau mögulega gætu „og ef það tekur hundrað daga, sem mér skilst að sé sá tími sem Kristján Loftsson hefur til þess að klára hvalveiðikvótann, þá verðum við hér í alla þá hundrað daga.“
Markmiðinu hefur nú verið náð, í það minnsta tímabundið, og virðist því ekki vera þörf á því að Watson og áhöfn hans dvelji langdvölum við Íslandsstrendur.
Tók Watson skýrt fram í samtali við mbl.is að barátta sín snéri ekki að íslenskri þjóð eða íslenskum stjórnvöldum heldur Kristjáni Loftssyni, sem hann kallaði „nútíma Ahab skipstjóra," með vísun í sögu Hermans Melville um hvalinn Moby Dick.
Þá skoraði hann jafnframt á Landhelgisgæsluna. „Við biðlum til Landhelgisgæslunnar að þau styðji við aðgerðir okkar sem miða að því að stöðva ólöglegar hvalveiðar á Íslandi.“
Einnig greindi Watson frá því í samtali við mbl.is að hann hygðist, ásamt áhöfn sinni, halda bráðlega til Japan í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hvalveiðar þar.
Samkvæmt upplýsingum embættis ríkislögreglustjóra er enn í gildi handtökuskipun hjá japönskum yfirvöldum vegna Watson. Ekki hefur verið gefin út handtökuskipun vegna þessa á Íslandi.