Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tekið ákvörðun um að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum fram til 31. ágúst næstkomandi, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Veiðar áttu að hefjast á morgun.
„Ég hef tekið ákvörðun um að stöðva hvalveiðar tímabundið í ljósi afdráttarlauss álits fagráðs um velferð dýra. […] Skilyrði laga um velferð dýra eru ófrávíkjanleg í mínum huga, geti stjórnvöld og leyfishafar ekki tryggt kröfur um velferð á þessi starfsemi sér ekki framtíð,“ segir Svandís í tilkynningunni.
Þá segir að ráðuneytið mun kanna mögulegar úrbætur og lagaleg skilyrði þess að setja frekari takmarkanir á veiðarnar á grundvelli laga um velferð dýra og laga um hvalveiðar á komandi mánuðum og leita álits sérfræðinga og leyfishafa í því skyni.
Nauðsynleg frestun
Í tilkynningunni er vísað til þess að að eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar á langreyðum, sem barst ráðuneytinu í maí 2023, sýndi skýra niðurstöðu um að en niðurstaða aflífun dýranna hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra.
„Matvælastofnun fól í kjölfarið fagráði um velferð dýra að meta hvort veiðarnar geti yfirhöfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu 19. júní og niðurstaða þess er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki lögum um velferð dýra.“
Í ljósi þessa er talið nauðsynlegt að fresta upphafi hvalveiðivertíðarinnar þannig að ráðrúm gefist til þess að kanna hvort unnt sé að tryggja að veiðarnar fari fram í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra.