Ögmundur H. Knútsson tók við starfi fiskistofustjóra 1. maí 2020 á miklum umbrotatímum. Hafði Fiskistofu nýlega verið gert að flytja höfuðstöðvar sínar frá Hafnarfirði til Akureyrar og ári fyrr hafði Ríkisendurskoðun gert miklar athugasemdir við starfsemi stofnunarinnar. Ögmundur telur mikilvægt að horft verði til nýrra lausna í eftirliti með sjávarútveginum, sagði hann í viðtali í síðasta blaði 200 mílna.
„Það var orðið alveg ljóst að stofnunin var í mikilli tækniskuld. Fiskistofa var á síðasta ári að fagna 30 ára starfsafmæli, stofnuð 1992 þegar sameinuð voru verkefni úr þáverandi sjávarútvegsráðuneyti, veiðieftirliti, Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnun og Ríkismati sjávarafurða. Frá þessum tíma sem framseljanlegur kvóti er tekinn upp í kringum 1991-1992 hefur verið rosalega hröð þróun í atvinnugreininni sem Fiskistofu hefur að mínu viti ekki tekist að fylgja eftir.“
Allt hafi verið lagt í sölurnar til að ná að vinna upp tækniskuldina og var skoðuð notkun drónaeftirlits sem síðan var keyrt á af fullum krafti frá janúar 2021. „Við höfum verið að vinna mjög markvisst í að vinna upp þá skuld. Setja fókusinn á sjálfvirkni, nýta tæknina og byggja upp okkar innri kerfi. Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Ögmundur.
Vill ganga lengra
Meira skal til ef duga skal, en Ríkisendurskoðun birti eftir viðtalið eftirfylgniúttekt þar sem stofnunin sagði Fiskistofu ekki hafa náð að gera þær úrbætur sem bent var á í úttekt stofnunarinnar.
Ögmundur telur ljóst að einungis fleiri eftirlitsmenn geti ekki skilað nægilegri þekju til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til eftirlits Fiskistofu.
Um miðjan maí hófst eftirlit í tilraunaskyni með myndavélum í samstarfi við tvö fyrirtæki og kveðst Ögmundur binda vonir við að það skili þekkingu sem stutt getur við öflugra eftirlit, en það er samt enginn endapunktur að mati hans.
„Ég hefði viljað sjá að við færum með þetta enn lengra og að horft væri til þess hvernig væri hægt að þróa sjálfvirkt eftirlit og gæðakerfi þar sem við gætum sannað umgengnina frá því að fiskurinn kemur í veiðarfæri, s.s. að það sé ekkert óeðilegt í gangi, ekkert brottkast, ekki sé að koma ólöglegur fiskur inn í virðiskeðjuna. Hér er átt við gæðakerfi sem fyrirtækin myndu sjálf innleiða og það væri eftirlitsins að votta þessi gæðakerfi. Þannig yrði þetta bara hluti af framleiðsluferlinu.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í blaði 200 mílna.