Strandveiðimenn skutu upp neyðarblysum fyrir utan Alþingishúsið í mótmælaskyni við stöðvun matvælaráðherra á strandveiðum. Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, sagði blysin tákna neyðarkall til þjóðarinnar.
Mótmælaaðgerðir fóru fram í dag, en strandveiðimenn, aðstandendur og almenningur söfnuðust saman fyrir utan Hörpu og gengu að Austurvelli í mótmælaskyni.
Kjartan segir mætingu betri en hann hafði þorað að vona. Mótmælendur hafi fyrst gengið að Stjórnarráðinu og barið þar á dyr en enginn verið við. Þau hafi þá arkað niður að Austurvelli og stillt sér þar upp.
Margt spennandi var á dagskrá en tónlistarmaðurinn KK tók lagið fyrir viðstadda og það gerðu einnig Kristján Torfi og trillukarlakórinn.
Þá segir Kjartan það sérstaklega hafa staðið upp úr að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sá um ræðuhald, en hann sagði stjórnvöld bera ábyrgð gagnvart strandveiðimönnum.
Að lokum hafi viðstaddir svo stillt sér upp fyrir framan Alþingishúsið og skotið upp neyðarblysum til að senda út ákall til þjóðarinnar.
„Um að hjálpa okkur að berjast fyrir mannsæmandi strandveiðakerfi,“ segir Kjartan. Hann kveðst hafa misst alla von um að það gerist nokkuð á þessu ári en segir að strandveiðimenn krefjist þess að kerfið verði lagfært fyrir næstu vertíð og til frambúðar.
„Þetta er svo mikil hungurlús sem okkur er skömmtuð og nú er komið að því að gera kerfið þannig að það sé hægt að lifa á strandveiðum.“
Hann segir sorglega lítið vanta upp á til að aflaviðmið séu næg, en Landssamband smábátaeiganda óskaði eftir að ráðherra hækkaði aflaviðmið um 4.000 tonn.
„Það lá alveg fyrir að potturinn væri of lítill og þyrfti að vera stærri, seinasta sumar,“ segir Kjartan. Hann segir sorglega lítið vanta upp á, en að fiskveiðiafli smábáta sé aðeins um 1,8 prósent.
„Það þyrfti ekki nema hálft prósent eða eitt prósent í viðbót til þess að þetta myndi ganga upp. En þeir sem að ráða sem eru bæði stjórnvöld og kannski stórútgerðirnar þau sjá bara ofsjónum yfir þessu hálfa prósenti.“