Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið beita Brim hf. dagsektum að upphæð 3.500.000 kr. á dag, þar sem fyrirtækið hefur ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn sem óskað var eftir í tengslum við yfirstandandi athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samkeppniseftirlitið birti ákvörðunina á vef sínum í dag.
Aðeins Brim á eftir að veita upplýsingar
Í verkefnaáætlun athugunarinnar kemur fram að athugunin styðjist annars vegar við gagnagrunna á vettvangi hins opinbera, sem nýtast við greiningu á stjórnunar- og eignatengslum. Mikil vinna hefur farið fram á þessu sviði og hefur Samkeppniseftirlitið nú fengið aðgang að helstu gagnagrunnum og hafið greiningu upplýsinga sem nýtast við athugunina.
Hins vegar styðst athugunin við upplýsingaöflun hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, eins og nánar er útskýrt í verkefnaáætluninni. Gagnaöflunin hófst með bréfi til allmargra sjávarútvegsfyrirtækja, með bréfi dagsettu 5. apríl síðastliðinn. Langflest fyrirtækin brugðust vel við beiðninni og veittu umbeðnar upplýsingar. Í nokkrum tilvikum voru þó gerðar athugasemdir við athugunina og upplýsingar veittar með fyrirvara af þeim sökum.
Eitt fyrirtæki, Brim hf., hefur þó ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn sem óskað var eftir. Hefur það óhjákvæmilega tafið rannsóknina.
Eftir ítrekuð bréfaskipti hefur Samkeppniseftirlitið nú tekið ákvörðun um að nýta sér heimild sem kveðið er á um 38. gr. samkeppnislaga til þess að beita fyrirtækið dagsektum. Þannig er Brim gert að greiða dagsektir að upphæð 3.500.000 kr. á dag, þar til umbeðnar upplýsingar og gögn hafa verið afhent. Byrja dagsektirnar að reiknast eftir að fjórtán dagar eru liðnir frá ákvörðun um hana, í samræmi við 39. gr. samkeppnislaga.
Athugasemdir við athugunina og gagnaöflun
Eins og áður greinir hafa nokkur fyrirtæki, þar á meðal Brim og Guðmundur Runólfsson hf., gert athugasemdir eða fyrirvara við athugunina og gagnaöflun á grunni hennar. Einkum er gerð athugasemd við að Samkeppniseftirlitið og matvælaráðuneytið hafi gert samning sem veiti eftirlitinu fjárhagslegt svigrúm til þess að ráðast í athugunina. Í athugasemdum fyrirtækjanna er meðal annars leitt að því líkum að samningurinn dragi úr sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.