Á tiltölulega skömmum tíma hefur orðið greinileg breyting á viðhorfi ungra Íslendinga í garð starfa í sjávarútvegi. Er mikið sótt í sjávarútvegstengt nám og hefur unga fólkið komið auga á að greinin býður upp á fjölda áhugaverðra tækifæra.
Meðal þeirra sem hafa ákveðið að finna hæfileikum sínum farveg í sjávarútveginum er Guðdís Benný Eiríksdóttir en hún á eftir einn vetur í BS námi í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og er alveg sérstaklega áhugasöm um laxeldi.
„Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2016 og vissi ekkert hvert ég vildi stefna. Mig langaði að kanna lífið og þreifa fyrir mér, og tók að mér hin ýmsu störf, og hugkvæmdist loks að prófa að vera eina vertíð í frystihúsinu. Fannst mér það svo skemmtilegt að ég endaði á að vinna þar í þrjú ár,“ segir Guðdís í síðasta blaði 200 mílna.
Guðdís Eiríksdóttir segir sjávarútvegsfræðinámið spanna vítt svið, allt frá bóklegum viðskiptafögum yfir í raungreinar.
Í frystihúsinu sinnti Guðdís ýmsum verkefnum og var á endanum orðin fullfær á alla vinnsluna. Þaðan færði Guðdís sig yfir í starf hjá laxeldisstöð og fólst vinnan í daglegu eftirliti með kvíum í Reyðarfirði.
Þegar hér var komið sögu var Guðdís orðin áhugasöm um að sækja sér sjávarútvegstengda menntun og meðfram vinnunni hjá laxeldisstöðinni stundaði hún nám í fiskeldisfræði hjá Háskólanum á Hólum. Lauk hún diplómagráðu þaðan árið 2021. „Ég vildi mennta mig enn frekar og tók stefnuna á námið við Háskólann á Akreyri. Mig langaði ekki að læra viðskiptafræði en sá þó gildi þess að velja nám með sterka viðskiptafræðilega tengingu og varð sjávarútvegsfræði fyrir valinu – og smellpassaði við það sem ég var búin að gera.“
Lesa má viðtalið allt í 200 mílum.