„Það var ótíð þegar ég lagði 1. júlí og skítaveður framanaf en það hefur verið þokkalegasta veiði,“ segir Ásmundur Sigurjón Guðmundsson í samtali við 200 milur. Hann gerir út Hönnu SH-28 frá Stykkishólmi sem er einn fárra báta sem enn eru á grásleppuveiðum, en Hanna er jafnframt aflamesti grásleppubáturinn það sem af er júlí og kominn með 20,2 tonn.
Fæst þokkalegt verð fyrir afurðina? „Nei, um 200 krónur. Þetta er bara fjölskyldusport, maður notar þetta til að herða krakkana,“ segir Ásmundur og skellir upp úr. „Maður hefur aðgang að ódýru vinnuafli, þess vegna getur maður verið í þessu.“
„Elsti strákurinn er búinn að vera með mér frá því hann var fimmtán ára og er núna 21. Svo rífast hin um að fá að vera með. Ég á fjögur börn og þau dreyma öll um að verða grásleppusjómenn, það er göfulegt markmið,“ segir Ásmundur og hlær.
Hann segir grásleppuveiðar geta verið mjög skemmtilegar ekki síst þegar viðrar vel, en veður var með ágætum undanfarna viku. „Maður rær alltaf ef það er þokkalegt veður. Það er fegurðin við að róa héðan, það er alltaf gott veður – nema í norðaustanátt.“
Veiðitímabil ársins hefur verið framlengt nokkur skipti og er nú gert ráð fyrir að veiðitímabilinu ljúki 12. ágúst, en samkvæmt breytingu á reglugerð um hrognkelsaveiðar sem birt var í stjórnartíðindum 14. júlí síðastliðinn verður heimilt að stunda grásleppuveiðar til 31. ágúst í Breiðafirði.
Ásmundur segir það fara alfarið eftir hvernig veiðin gangi hversu lengi hann haldi áfram. „Ég held það fari að draga úr, en maður veit aldrei.“
Hann kveðst hafa margra ára reynslu á grásleppunni að baki, en að hann hafi ekki verið tvö síðustu ár vegna þess hve mikil óvissa hefur verið í skipulagi veiðanna. „Þetta er búið að vera út og suður einhvernveginn, bara búið að vera rugl. Ég fór síðast þegar flautað var af á miðri vertíð og við fengum fimmtán daga. Þetta er mikil fyrirhöfn [að undirbúa veiðar] fyrir fimmtán daga.“
Sem fyrr segir er bátur Ásmundar aflahæsti grásleppubáturinn það sem af er júlí með rúm 20 tonn. Alls eru tíu bátar með yfir 10 tonn í júlí en Hanna SH er sá eini sem náð hefur yfir 20 tonnum, á eftir fylgir Andri SH-450 með 18,2 tonn.
Spurður hvernig það sé að vera aflahæstur segist Ásmundur ekki fylgjast með því, en segir svo „þetta er bara heppni.“
Grásleppubátar hafa landað rúmum 200 tonnum það sem af er júlí og er eftir heimild til veiða á um 600 tonnum til viðbótar. Ekki er talið liklegt að takist að ná þeim afla.