Engin þjóð neytir meira magns af saltfiski á mann en Portúgalir. Er það til marks um stöðu saltfisksins í portúgölsku mataræði að hann var valinn í körfu matvæla sem ekki þurfa að bera virðisaukaskatt, á meðan reynt er að hægja á verðbólgunni í landinu.
Íslenskur saltfiskur hefur mjög sterka stöðu í Portúgal, en Nuno Arújo segir í síðasta blaði 200 mílna seljendur þurfa að gæta þess að sofna ekki á verðinum og fylgjast vel með breytingum sem kunna að verða á hegðun neytenda.
Nuno er forstjóri saltfiskframleiðandans Grupeixe, en fyrirtækið er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og með nærri helmings hlutdeild á portúgölskum saltfiskmarkaði „Það er ákveðin athöfn að matreiða saltfisk og þarf að útvatna hann eftir kúnstarinnar reglum. Eldri neytendur í Portúgal, þ.e. þeir sem komnir eru yfir 55 ára aldur eða þar um bil, kjósa hefðbundna saltfiskinn, en yngri kynslóðirnar sækja í auknum mæli í léttsöltuð og fryst flök og minni skammta sem auðveldara er að elda,“ segir Nuno.
„Sjálfum þykir mér hefðbundni saltfiskurinn miklu bragðbetri og áhugaverðari vara, en við þurfum vitaskuld að hlýða á óskir neytenda.“
Uppruni íslensks saltfisks kemur skýrt fram á neytendapakkningum.
Ljósmynd/Pedro Cerqueira
Grupeixe er nokkuð stór vinnustaður: Þar starfa 42 manneskjur sem fullverka fiskinn, sem kemur saltaður frá Íslandi. Reiknast Nuno til að um 80% af hráefninu sem fer í gegnum 2.000 fermetra verksmiðju Grupeixe komi frá Íslandi, en 20% frá norskum útgerðum.
Segir hann íslenskan saltfisk hafa mjög sterkt gæðaorðspor í Portúgal og fyrir vikið seljist hann á hærra verði en sá norski: „Í huga portúgalskra neytenda er íslenski saltfiskurinn einfaldlega betri, og er hann merktur sem slíkur í verslunum. Hefur tekist að viðhalda þessu sterka orðspori þrátt fyrir að norskur sjávarútvegur verji háum fjárhæðum ár hvert í að markaðssetja sinn saltfisk.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í blaði 200 mílna.