Nýr ísfisktogari Ísfélagsins hf. var sjósettur hjá skipasmíðastöðinni Celiktrans í Tyrklandi í dag og ber skipið nafnið Sigurbjörg ÁR. Áætlað er að Sigurbjörg komi til landsins um áramótin og er smíðaverð um þrír milljarðar króna.
„Þetta gekk mjög vel og skipið lítur mjög vel út, virkilega fínt,“ segir Ragnar Aðalsteinsson útgerðarstjóri sem var viðstaddur sjósetninguna, en hann hefur ásamt Þórði Þórðarsyni vélstjóra verið yfir smíði skipsins.
„Þetta er í annað skipti sem ég geri þetta og bæði skiptin er þetta mjög spennandi og gaman að fylgjast með þessu. Þetta er mikil vinna og þarf að vera með augun opin og tryggja að allt sé gert samkvæmt bókinni,“ segir hann.
Fjöldi fólks sem komið hefur að smíðinni var mætt til að fylgjast með sjósetningunni og var Sigurbjörg prýdd íslenskum og tyrkneskum fána auk stórrar myndar af Kemal Ataturk, fyrrverandi leiðtoga Tyrkja.
Enn er nokkuð í að skipið verði fullklárt en vélin er komin í vélarrúmið, að sögn Ragnars. „Það sem tekur nú við er að festa niður, stilla af, koma með gír, rafal og þess háttar. Svo þarf að setja um borð spilbúnaðinn og vinnslubúnaðinn.“
Togarinn verður full kláraður í Tyrklandi og þegar hann kemur til Íslands verður hann gerður tilbúinn til veiða. „Þá verður farið í svokallaðar fiskiprufur og unnið að lokastillingum á vinnslubúnaði, kælibúnaði og þess háttar,“ útskýrir Ragnar.
Skipið er hannað af Nautic ehf. fyrir útgerðarfélagið Ramma á Siglufirði, en félagið hefur sameinast Ísfélagi Vestmannaeyja hf. undir heitinu Ísfélag hf. og er stefnt að því að skrá félagið á markað.
Mesta lengd skipsins er 48,1 metri og breiddin 14 metrar. Þegar öllum búnaði hefur verið komið um borð verður Sigurbjörg búin fjórum togvindum og aðalvélin 1.795 hestöfl. Skipið hefur svipaða hönnun og Akurey og Viðey, en er aðeins styttra og er breiðari en þau. Þau skip voru smíðuð hjá Celiktrans fyrir Brim hf. og komu til landsins 2017.
Sigurbjörg er ekki nýtt nafn í skipaflota Ramma og kom Sigurbjörg ÓF-4 (hin eldri) úr síðustu veiðiferð sinni árið 2017, en þá var skipið orðið 38 ára gamalt. Nýtt skip útgerðarinnar Ramma, Sólberg ÓF 1, tók þá við af Sigurbjörginni og Mánabergi ÓF-42.
Sigurbjörg eldri var smíðuð árið 1979 í Slippstöðinni á Akureyri. Útgerðin Magnús Gamalíelsson hf. gerði skipið upphaflega út, en eftir sameiningu við Þormóð Ramma-Sæberg í lok síðustu aldar komst skipið í eigu núverandi eiganda. Ný Sigurbjörg mun síðan vera gerð út af hinu nýja sameinaða félagi Ísfélag hf.