Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hagnaðist um 10 milljónir evra, eða rúma 1,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðingi 2023 samanborið við 22 milljóna evra hagnað á sama tíma á síðasta ári. Samdrátturinn nemur 55% milli ára.
Tekjur fyrirtækisins drógust einnig saman. Þær voru 109 milljónir evra, eða 15,6 milljarðar króna, á fjórðungnum samanborið við 149 milljónir evra, eða 21,2 milljarða króna á sama tíma í fyrra.
Í tilkynningu frá félaginu segir að eignir hafi hækkað um 12 milljónir evra frá áramótum og námu 955 milljónum evra, eða 137 milljörðum króna, í lok tímabilsins.
Eigið fé félgasins þann 30. júní 2023 var 442 milljónir evra og eiginfjárhlutfall er 46,2%.
Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins segir að afkoman af rekstri Brims það sem af er ári sé viðunandi. Aðstæður séu engu að síður krefjandi og ýmis teikn á lofti um að herða þurfi róðurinn.
„Þegar horft er um öxl sést að hagnaður á öðrum fjórðungi er sá þriðji mesti í a.m.k. áratug. Aðeins í fyrra og hitteðfyrra var hann meiri. Þá sjáum við einnig að hagnaður á fyrri helmingi árs hefur aðeins einu sinni verið meiri en það var í fyrra þegar uppsjávarafurðir voru seldar í óvenjumiklu magni,“ segir Guðmundur í tilkynningunni.
Hann segir að þegar litið sé til næstu missera séu blikur á lofti og framlegðin af starfseminni fari minnkandi. „Veiðar og vinnsla uppsjávartegunda hefur verið nokkuð stöðug en niðurskurður aflaheimilda í bolfiski er farinn að bíta – aflinn er minni, það dregur úr hagkvæmni sem skilar sér í minni framlegð.“
Guðmundur segir aðstæður á alþjóðamörkuðum hafi áfram verið erfiðar á fyrri hluta ársins. Lægra verð á sjófrystum þorski og ýsu hafi haft neikvæð áhrif og einnig hafi verð á loðnuhrognum lækkað verulega frá síðasta ári. „Mikilvægt er að hafa í huga að á öðrum ársfjórðungi í fyrra voru miklar sölutekjur af loðnuhrognum sem ekki varð í ár og því situr félagið á umtalsverðum birgðum,“ bendir Guðmundur á.
Hann ræðir einng efnahagsaðstæður bæði hér heima og ytra, þar sem verðbólga sé mikil og vextir háir. Það hafi einnig þyngt róðurinn sem sjáist á að fjármagnskostnaður á fyrri hluta ársins var rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra.
„Á fyrri hluta ársins hélt fyrirtækið áfram að styrkja stoðir starfseminnar með fjárfestingum í traustum innviðum. Bæði var keyptur frystitogari sem hlotið hefur nafnið Þerney og þá var gengið endanlega frá kaupum Brims á 50% hlut í danska vinnslu- og sölufélaginu Polar Seafood Denmark. Brim hefur á síðustu árum lagt áherslu á að treysta alla hlekkina í virðiskeðju félagsins. Með fjárfestingunni í Polar Seafood hefur Brim styrkt markaðsstöðu sína umtalsvert og aukið möguleika félagsins á að finna afurðum sínum leið á verðmæta markaði,“ segir Guðmundur einnig í tilkynningunni.
Hann segir ljóst að framundan séu tímar sem kalli á aðgát og aukið aðhald. „Brim er öflugt félag sem stendur fjárhagslega sterkt og þolir ágjöf. Starfsfólk hefur marga fjöruna sopið og getur tekist á við breytingar og erfiðleika eins og vel hefur komið í ljós á síðustu árum. Við erum því full bjartsýni þó svo við búum okkur undir að syrt geti í álinn.“