Systurskipin Björgúlfur EA og Björg EA eru komin úr slipp og eru því tilbúin til að takast á við nýtt fiskveiðiár sem hefst 1. september. Skipin fóru bæði í slipp hjá Slippnum Akureyri og voru þau bæði máluð og unnið að endurbótum um borð, að því er fram kemur í færslu á vef Samherja.
Björgúlfur og Björg eru tvö af fjórum systurskipum sem smíðuð voru hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Björgúlfur kom nýr til Akureyrar í júní 2017 og Björg í lok október sama ár. Hin skipin eru Kaldbakur EA-1 sem Samherji gerir einnig út og Drangey SK-2 sem FISK Seafood gerir út.
Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir í færslunni að tími hafi verið kominn á hreinsun skrokka skipanna. „Þegar skipin voru byggð var vandað til allra verka og málningin hefur því enst mjög vel, aðeins hefur þurft að lagfæra skemmdir sem alltaf verða á skrokkum skipa. Núna létum við sem sagt háþrýstiþvo skrokka skipanna og mála. Þetta er nauðsynlegt að gera reglulega, fjarlægja gróður og þvo allt salt í burtu áður en málað er. Síðast en ekki síst stuðlar góð og markviss hreinsun að betri orkunýtingu og sparnaði í olíunotkun, þannig að hvatarnir eru margir í þessum efnum.“
Þá hafi einnig verið timabært að huga að lagfæringum um borð í skipunum tveimur. „Það eru margir slitfletir um borð í fiskiskipum sem stöðugt þarf að fylgjast með og lagfæra. Stýrisbúnaður var meðal annars yfirfarinn og uppfærður í öðru skipanna, svo ég nefni sem dæmi. Þessi systurskip hafa reynst afskaplega vel en auðvitað þarf stöðugt að endurnýja ýmsa hluti, það er bara hefðbundið og sjálfsagt viðhald. Í tengslum við sumarleyfi starfsfólks vinnsluhúsanna á Dalvík og Akureyri er sjósóknin ekki eins stíf og tími gefst því til viðhalds og endurbóta. Skertar veiðiheimildir hafa líka sitt að segja í þessum efnum en nýtt fiskveiðiár hefst þann 1. september,“ segir Kristján.
Hann segir mikla ánægju vera með vinnu starfsmanna Slippsins Akureyri „Skipin eru eins og ný, auk þess sem allar tímaáætlanir stóðust. Innan raða Slippsins er mikil þekking og reynsla í háþrýstiþvotti og málningu enda eru þessir þættir mikilvægir í viðhaldi skipa. Ég held að áhugafólk um skip taki yfirleitt eftir nýmáluðum skipum, mér sýnist að minnsta kosti margir taki myndir af systurskipunum eftir að þau voru máluð svona vel og það er bara skemmtilegt.“