Landeldisfyrirtækið First Water, áður Landeldi hf., hefur ráðið Heðin N. Joensen frá Færeyjum í stöðu eldisstjóra fyrirtækisins.
Heðin hefur yfir 30 ára reynslu af fiskeldi og endurnýtingu vatnskerfa. Heðin, sem hefur störf á föstudag, hefur undanfarin átta ár starfað sem framleiðslustjóri Hiddenfjord í Færeyjum.
Á árunum 2004 til 2015 var hann vinnslustjóri Kaldbaks í Færeyjum og hafði þar umsjón með vörumerkinu Viking Seafood, sem síðar varð Bakkafrost, og framleiðslu silungs og lax. Þar á undan starfaði Heðin fyrir Smoltstöðina í Svínoy þar sem hann hafði umsjón með ferskvatnseldi um sex ára skeið.
Forstjóri First Water, Eggert Þór Kristófersson, kveðst í tilkynningu vera gríðarlega ánægður með ráðninguna.
„Við bindum miklar vonir við að hann muni leggja mikið til í þeim vexti sem félagið stefnir að á næstu árum. Hann hefur átt stóran þátt í þeim góða árangri sem Hiddenfjord í Færeyjum hefur náð, en það er eitt frambærilegasta laxeldisfyrirtækið í Færeyjum að okkar mati. Við hjá First Water gerum okkur grein fyrir því að mannauðurinn er eitt það allra verðmætasta sem félag eins og okkar getur átt og Heðin verður lykilþáttur í þeirri þekkingu sem við erum að byggja upp innan félagsins,“ er haft eftir honum.
First Water starfrækir seiðaeldisstöð við Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn.
Félagið hefur lokið umhverfismati og hefur öðlast öll leyfi til að ala árlega um 8 þúsund tonn af laxi, en markmið félagsins er að framleiðslugeta félagsins verði á endanum um 43 þúsund tonn á ári. Meðal hluthafa First Water eru frumkvöðlar, stjórnendur og starfsmenn, auk fjárfesta. Stærsti hluthafi First Water er fjárfestingafélagið Stoðir hf. með 40% hlut.