Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir tillögur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra er varða hækkun veiðigjalda og tilraunir um uppboð aflaheimilda hafa komið sér á óvart.
Í gær kynnti Svandís tillögur starfshópa stefnumótunarverkefnisins Auðlindarinnar okkar. Tillögurnar eru 30 talsins og fela í sér ýmiss konar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en skiptar skoðanir eru um ágæti þeirra og þau áhrif sem þær gætu haft í för með sér.
„Maður hefði vonað að tillögur sem kæmu á grundvelli þessarar niðurstöðu væru meira í takt við það hvernig hægt sé að skapa enn meiri verðmæti úr sjávarauðlindinni fyrir samfélagið í heild sinni til skemmri og lengri tíma,“ segir Heiðrún. „Hins vegar virðast þær tillögur sem ráðherra hefur núna boðað um hækkun veiðigjalda og tilraunir um uppboð aflaheimilda vera síst til þess fallnar að auka verðmæti á sjávarauðlindinni heldur þvert á móti,“ heldur hún áfram.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, kveðst vera alfarið mótfallinn þeim tillögum ráðherra er varða breytingar á línuívilnun. „Við mótmælum því harðlega að það skuli vera stefnt að því að leggja línuívilnunina af og svo erum við alveg gáttaðir á því að það skuli ekki vera komið til móts við strandveiðarnar og aflinn aukinn þar,“ segir Örn. „Þessi tillaga eins og hún leggur sig núna, það er ekki verið að leita sátta með henni, svo mikið er víst,“ bætir hann við.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd Alþingis, segir að sér lítist vel á tillögu starfshópsins um að bjóða út byggðakvótann.
„Í fyrsta lagi hefur það kerfi ekki gengið nógu vel, en auk þess tel ég að til þess að fá markaðsverð á kvótann eigi að bjóða hann út og síðan gengur leiguverðið til sveitarfélaganna sem geta nýtt hann til atvinnuuppbyggingar. Síðan er ég ánægð með tillöguna um að öll viðskipti með aflaheimildir verði skráð og birt opinberlega og svo fagna ég einnig áherslum á auknar hafrannsóknir og að vistkerfisnálgun verði beitt við ákvörðun nýrra nýtingarleiða í sjó,“ segir Oddný.„Ég hefði þó viljað sjá stærri skref tekin þar sem ég tel að það þurfi að stækka litla kerfið, en þá þarf að taka af stóra kerfinu og þeir halda fast um það sem þar eiga hagsmuna að gæta.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.