Píratar gagnrýna harðlega áform Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um nýja reglugerð sem ætlað er að bæta umgjörð veiða á langreyðum á komandi hvalveiðitímabili og hefur flokkurinn kallað eftir stuðningi allra þingflokka til að leggja fram frumvarp við hvalveiðum um leið og þing kemur saman að nýju.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður fyrirhugaðs frumvarps um bann við hvalveiðum, segir reglugerð ráðherra um bætta umgjörð veiða á langreyðum veruleg vonbrigði og að ómögulegt sé að fullyrða að þær breyttu aðferðir sem boðaðar hafa verið skili sér í mannúðlegri meðferð á dýrunum.
„Mér finnst það ekki góð niðurstaða að ráðherra sé að opna á einhverja óreynda tilraunastarfsemi í hvaladrápi,“ segir Andrés. „Þarna eru allskonar hugmyndir um það hvernig sé hægt að gera með „strangari skilyrðum“ eins og hún kallar þetta, en þetta eru ekkert annað en tilraunir á því hvernig hægt er að murka lífið úr hvölunum.“
Andrés segir ákvarðanir matvælaráðherra um áframhaldandi hvalveiðar stríða gegn stefnu Vinstri grænna, sem og vilja almennings.
„Það er stefna hennar flokks að vera á móti hvalveiðum, en hún hefur einmitt raðað upp á þessa leið ýmsum vörðum þar sem hún talar eins og hún verði að gera hitt og þetta. Hún fékk skýrslu í vor þar sem hún sagði að hendur hennar væru bundnar og að hún gæti ekki annað en frestað upphafi hvalveiðitímabilsins.
Það sama gerir hún núna og þetta snýst alltaf bara um sömu grundvallarspurninguna sem hún hefði getað svarað um leið og hún settist í embætti: ætlar hún að axla þá pólitísku ábyrgð að standa með stefnu síns flokks og standa með sjónarmiðum meirihluta almennings um að banna hvalveiðar?" spyr Andrés.
Hann segir ráðherra hafa átt að grípa til aðgerða mun fyrr en raun bar vitni. „Að taka ákvörðun degi áður en veiðitímabilið byrjar er auðvitað fáránleg stjórnsýsla, en það er bara af því að hún fór of seint af stað í öll þessi skipti. Hún hefði getað farið að stíga þessi skref um leið og hún settist í embætti en kaus að gera það ekki og bíða. Fyrir lengi vikið opnar hún á ómannúðlega tilraunastarfsemi,“ segir Andrés.
Nú þegar liggur fyrir að hvalveiðar hefjist að nýju á morgun, 1. september, hafa Píratar sent frá sér drög að frumvarpi sem flokkurinn hyggst leggja fyrir þingið um leið og það kemur saman að nýju. Andrés, sem fer fyrir frumvarpinu, segir megininntak frumvarpsins einfalt; að banna hvalveiðar með lögum.
„Grunnpunkturinn er sá að það eigi að banna þetta. Við viljum að allt sem snerti hvali fari undir villidýralög sem eru nútímalegri lög sem hafa meginreglur umhverfisréttarins að leiðarljósi,“ segir Andrés.
„Við vonuðum nú að það kæmi ekki til þessa, en þetta frumvarp höfum við átt á lager í svolítinn tíma. Því það er stefna okkar hreyfingar að banna hvalveiðar og ólíkt matvælaráðherra stöndum við með henni.“
Að sögn Andrésar eru núgildandi lög um hvalveiðar barn síns tíma og liggja engar efnahagslegar forsendur fyrir áframhaldandi hvalveiðum.
„Þessi lög eru áttatíu ára gömul og fullkomlega úrelt,“ segir Andrés. „Það er ekki verjandi að pynta dýr til dauða í tilgangsleysi. Þetta virðist bara vera rekið sem rándýrt áhugamál hjá einhverjum auðjöfri. Efnahagslegar forsendur eru löngu brostnar hafi þær einhvern tímann verið fyrir hendi.“
Andrés segir Pírata kalla eftir því að málið fái vandaða þinglega meðferð og að þingið taki afstöðu með umhverfinu, loftslaginu, dýravelferð og framtíðinni.
„Þetta er í skjalavinnslu núna og svo eigum við eftir að sjá hvað það kemur mikið af þingfólki úr öðrum flokkum með okkur í þetta. Ef þingið endurspeglar vilja almennings nær þetta fram að ganga,“ segir Andrés loks.