Fiskisjúkdómanefnd ákvað á fundi sínum 4. september að mæla með því að Matvælastofnun samþykki tvær umsóknir um notkun lyfja gegn laxalús vegna fjölgun lúsa á eldislaxi í sjókvíum í Tálkanfirði. Þá var lagt til að afgreiðsla tveggja umsókna um notkun lyfja í Arnarfirði yrði frestað og að umsókn um lúsameðhöndlun í Patreksfirði yrði hafnað.
Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem birt hefur verið á vef Matvælastofnunar.
Í fundargerðinni segir að út frá fyrirliggjandi gögnum um stöðu og þróun hafi Fisksjúkdómanefnd mælt með lúsameðhöndlun á eldislaxi með Salmosan (Azamethiphos) lúsalyfi í Hvannadal í Tálknafirði. Einnig taldi nefndin að tilefni væri til að mæla með notkun Salmosan og að hluta til Slice (Emamectin) lúsalyfi í Laugardal i Tálknafirði.
Afgreiðslu frestað
Nefndin taldi hins vegar rétt að fresta afgrieðslu umsóknar um leyfi til lúsameðhöndlunar á eldislaxi með Salmosan í Hvestu í Arnarfirði. „Að mati nefndarinnar er síðasta niðurstaða lúsatalningar á umræddu eldssvæði ekki þannig vaxin að ástæða sé til lyfjameðhöndlunar að sinni. Nefndin mælir með að afgreiðslu umsóknar verði frestað þar til frekari upplýsingar liggja fyrir. Nefndin leggur áherslu á að áfram verði fylgst með fjölda sníkjudýra á eldissvæðinu með vikulegum talningum og að gripið verði til viðeigandi ráðstafana ef svo ber undir.“
Þá var einnig komist að sömu niðurstöðu vegna umsóknar um lúsameðhöndlun á eldislaxi í Hringsdal í Arnarfirði.
Ekki var samþykkt að beita lúsalyfjum í Patreksfirði.
mbl.is/Ágúst Ingi
Ekki var talin ástæða til að mæla með notkun Salmosan í Kvígindisdal í Patreksfirði. „Að umfjöllun lokinni komst fisksjúkdómanefnd að þeirri samdóma niðurstöðu að mæla ekki með því við Matvælastofnun að heimila umbeðna lyfjameðhöndlun í Patreksfirði. Þar eru lúsatölur vissulega háar, en verið er að slátra upp af svæðinu og er áætlað að þeirri framkvæmd verði lokið um miðjan september. Útfrá umhverfis- og velferðarsjónarmiðum fisksins hníga flest rök að þeirri niðurstöðu að ekki sé rétt að meðhöndla með lúsalyfi. Um sé að ræða neyðarráðstöfun sem nái ekki tilgangi sínum fáum dögum fyrir slátrun.“