Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að horft verði til þeirra „alvarlegu“ atvika þar sem laxar hafa sloppið úr sjókvíum og gengið í laxveiðiár við það mat sem liggur að baki heildarstefnumótum fyrir fiskeldi í heildina sem nú sé unnið að. Hún telur ekki tímabært að úttala sig um það hvort skaðinn á náttúrulegum stofnum sé óafturkræfur.
„Við erum nú með á þingmálaskrá heildarendurskoðun á lögum um fiskeldi og þar þurfum við að horfa til þeirra atvika sem upp hafa komið. Í framhaldinu að meta það hvort þessi tilvik séu þess eðlis að þau kalli á nýja og breytta sýn á uppbyggingu og framtíð þessarar greinar,“ segir Svandís.
Eftirlitsmönnum fjölgar úr fimm í fjórtán
Hún segir að rekstaraðilar beri ábyrgð á því að fara eftir reglur en einnig þurfi að horfa til þess hvernig eftirlit er byggt upp og hversu þétt það er.
„Við gerum ráð fyrir því í fjármálaáætlun að það þurfi að efla eftirlitið umtalsvert. Raunar er gert ráð fyrir að eftirlitsmönnum fjölgi úr fimm í fjórtán vegna þess að eftirlitið hefur ekki verið nægjanlega öflugt. Síðan að horfa til þess hvort að viðurlög séu nægjanlega afgerandi,“ segir Svandís.
Hún segir að ofangreint verði kynnt á samráðsgátt stjórnvalda þegar þar að kemur.
Brugðist við
Spurð hvort að skaðinn sé ekki óafturkræfur í ljósi þess að eldislaxinn er þegar genginn í ár víðs vegar um landið, þá segir Svandís ljóst að atvikin séu alvarleg.
„Ég hef það frá mínu fólki að það dylst engum að þetta eru mjög alvarleg atvik. Það liggur algjörlega fyrir og við því þarf að bregðast við. Bæði til skemmri og lengri tíma. Það er það sem verið er að horfa til og verður gert á vettvangi eftirlitsstofnana og í endurskoðun á regluverki og lagaumhverfi,“ segir Svandís.
En til áréttingar; er ekki skaðinn þegar óafturkræfur?
„Ég ætla ekki að tjá mig um einstaka atvik. Til þess þurfum við að fá nánari niðurstöðu frá þeim stofnunum sem hafa það úrlausnarefni,“ segir Svandís.