„Ljóst er að styrkja þarf veiðieftirlitið sem komið er að þolmörkum,“ segir í greinargerð fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að fjárheimild hækki um 45 milljónir til fjölgunar stöðugilda eftirlitsmanna Fiskistofu og er gert ráð fyrir að framlagið hækki á komandi árum og verði nærri 100 milljónum árið 2026.
Áhersla hefur verið lögð á að taka í notkun nýja tækni við eftirlit Fiskistofu undanfarin ár í þeim tilgangi að auka skilvirkni, en fram kom í eftirfylgniúttekt Ríkisendurskoðunar í júní að matvælaráðuneytið og Fiskistofa hafa ekki brugðist með viðunandi hætti við úrbótatillögum stofnunarinnar frá árinu 2018 í sambandi við eftirlit stofnananna með vigtun sjávarafla, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna málaflokks sjávarútvegs og fiskeldis verði 7.727,5 milljónir króna sem er 12,5% meira en gert var ráð fyrir á fjárlögum vegna ársins 2023 og 3,5% aukning miðað við ríkisreikning ársins 2022.
Hækkun fjárheimilda vegna nýrra og aukinna verkefna nemur 623 milljónum króna og hækkun vegna launa- og verðlagsbóta nemur 441 milljón. Á móti kemur 305 milljóna aðhaldskrafa og hundrað milljóna lækkun vegna tímabundinna heimilda sem veittar voru á síðasta ári.
Þá segir í greinargerð að þrjú markmið liggi til grundvallar fjárveitingum til málaflokksins. Fyrst að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar og skapa fiskeldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi.
Þá aukast fjárheimildir Matvælastofnunar um 126 milljónir króna til að auka eftirlit með sjókvíaeldi og tryggja fullnægjandi eftirlit með skráningum og innra eftirliti sjókvíaeldisfyrirtækja. Áætlað er að framlagið muni hækka á komandi árum og verði í kringum 230 milljónir króna frá og með árinu 2026.
Gert er ráð fyrir að útgjöld aukist um 126 milljónir til að „styrkja verkefni Hafrannsóknastofnunar á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar. Gert er ráð fyrir að framlagið fari hækkandi á komandi árum og verði komið í kringum 226 m.kr. frá og með árinu 2026.“
Mesta hækkun fjárheimilda í málaflokknum er tímabundin hækkun fjárheimildar vegna hvalatalninga á árinu 2024 og nemur hún 200 milljónum króna. Hvalatalning átti að fara fram á þessu ári en henni var frestað þar sem ekki fékkst samþykkt fjárheimild á síðasta ári.
Fjárheimildir til Hafrannsóknastofnunar hækka um 180 miljónir króna í þeim tilgangi að efla rannsóknir stofnunarinnar „með það að markmiði að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi,“ að því er segir í greinargerðinni. Gert er ráð fyrir að framlagið fari hækkandi á komandi árum og verði komið í 630 milljónir króna árið 2026.
Fram kemur að tillagan sé hluti af „aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara mikilvægu málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar.“ Er framlaginu meðal annars ætlað að tryggja betur rekstur stofnunarinnar, efla rannsóknir á vistkerfum og auka úthaldsdaga rannsóknaskipa.