Dagsektir Samkeppniseftirlitsins á sjávarútvegsfyrirtækið Brim eru ólöglegar og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar að lútandi var felld úr gildi af áfrýjunarnefnd samkeppnismála með úrskurði í dag.
Samkeppniseftirlitið ákvað í júlí að beita sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. 3,5 milljón króna dagsektum – hæstu dagsektum í sögu eftirlitsins – til þess að knýja á um að fyrirtækið afhenti því allar umbeðnar upplýsingar í tengslum við athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi, sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra átti frumkvæði að, líkt og ljósi hefur verið varpað á í fréttum mbl.is að undanförnu.
Áfrýjunarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að lagaheimildir Samkeppniseftirlitsins til beitingu dagsekta hrökkvi ekki til. Þær séu veittar til að unnt sé að beita þvingunaraðgerðum í samkeppnisbrotamálum, sem séu til meðferðar hjá eftirlitinu, til þess að fá afhent gögn eða til þess að ýta á eftir því að farið sé að ákvörðunum þess.
Það eigi ekki við um þessa athugun, sem unnin sé samkvæmt samningi og fyrir greiðslu frá matvælaráðuneytinu með áskilnaði um að það fái í hendur skýrslu um niðurstöður athugunarinnar. Gagnkvæmar skyldur séu samkvæmt samningnum og ráðuneytið geti gripið til vanefndaúrræða. Samningurinn hafi því allt yfirbragð verktakasamnings.
„Í samkeppnislögum er ekki gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstakar athuganir stofnunarinnar eða tilhögun þeirra sem leiði til þess að stofnunin skili niðurstöðum sínum til þeirra í formi skýrslna gegn greiðslu,“ segir í úrskurði áfrýjunarnefndar.
„Verður að telja að slíkt samræmist ekki því hlutverki Samkeppniseftirlitsins sem því er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðs stjórnvalds.“
Áfrýjunarnefndin lætur þar ekki staðar numið.
„Þaðan af síður [verður] talið að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum til að knýja á um afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa.“
Tekið er fram í úrskurðinum, að þrátt fyrir að það sé hlutverk eftirlitsins að birta skýrslur í kjölfar athugana sinna og grípa eftir atvikum til aðgerða til þess að stuðla að virkri samkeppni, þá geti slíkar skýrslur ekki grundvallast á samningi við þriðja aðila.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir að öllu virtu hafi skilyrði 38. gr. samkeppnislaga um álagningu dagsekta ekki verið uppfyllt. „Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála [er] að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun.“
Í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sitja Björn Jóhannesson formaður, Anna Kristín Traustadóttir og Kristín Benediktsdóttir.