Arctic Fish mun sjá um slátrun á öllum þeim laxi sem Háafell framleiðir næstu þrjú árin samkvæmt nýgerðum samningum þess efnis. Mun Framleiðslan fara fram í Drimlu, nýrri laxavinnslu Arctic Fish í Bolungarvík sem tekin var í notkun í sumar. Auk þess mun brunnbátur á vegum Arctic Fish, Nova Trans flytja lifandi lax í Drimlu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Fyrsti laxinn úr framleiðslu Háafells í Ísafjarðardjúpi sendur til Arctic Fish til slátrunar í dag, en það mun vera fyrsti laxinn sem slátrað er úr Djúpinu eftir að fyrstu laxaseiðin fór í sjó þar vorið 2022.
„Laxavinnslan Drimla annar um 100 tonna framleiðslu á dag og fara um 450 tonn á viku frá vinnslunni. Háafell gerir ráð fyrir að slátra um 2.000 tonnum í haust og vetur en heildarframleiðsla í húsinu verður um 20.000 tonn á næsta ári sem samsvarar um 20 milljarða útflutningsverðmætum. Fiskurinn fer að mestu ferskur á erlenda markaði en hluti framleiðslunnar er frystur í vinnslu Jakobs Valgeirs í Bolungarvík. Lang stærsti hluti framleiðslunnar er fluttur sjóleiðina á erlenda markaði til að lágmarka kolefnisspor framleiðslunnar,“ segir í tilkynningunni.
Alls tsrafa um 30 í Drimlu, bæði tæknifólk og í vinnslu.
„Það er ánægjulegt fyrir okkur að geta nýtt okkur laxavinnslu Arctic Fish hér í Ísafjarðardjúpi. Við hefjum ferlið innst í Djúpinu á Nauteyri í seiðaeldinu, ölum laxinn upp í miðju Djúpinu og uppskerum svo í Bolungarvík, þannig að framleiðsla okkar er öll í Ísafjarðardjúpi. Vinnslan Bolungarvík er janframt eins sú tæknivæddasta í heimi með nýjasta mögulega búnað svo sem ofurkælingartönkum sem á að tryggja gæði vörunnar,“ er haft eftir Gauta Geirssyni, framkvæmdastjóra Háafells, í tilkynningunni.
„Með því að Háafell komi með framleiðslu sína til okkar verður framleiðslan í vinnslunni stöðugri og hagkvæmari fyrir báða aðila. Við höfum lagt í mikla fjárfestingu í þessu húsi sem nýtist nú fleirum. Það styrkir báða aðila í samkeppni á erlendum mörkuðum,“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri laxavinnslunnar Drimla.