Á meðan Íslendingar horfa upp á mögulegan loðnubrest gefa norskir vísindamenn út mestu ráðgjöf um hámarksafla loðnuveiða í Barentshafi frá árinu 2018. Leggur norska hafrannsóknastofnunin (Havforskningsinstituttet) til að ekki verði veitt meira en 196 þúsund tonn af loðnu árið 2024.
Um er að ræða þreföldun á ráðgjöf fyrir vertíðina 2023 er hún var 62 þúsund tonn.
Fram kemur á vef norsku stofnunarinnar að mælst hafi mikið af loðnu í vistkerfismælingaleiðangri stofnunarinnar í Barentshafi og að norskir og rússneskir vísindamenn séu sammála um ráðgjöfina.
„Niðurstöður leiðangursins sýna að þriggja ára loðna, árgangur 2020, er stærsti hluti kynþroska loðnu sem stendur til að veiða. Á sama tíma er meira um fjögurra ára loðnu en mælst hefur frá árinu 1980, sem stuðlar einnig að stærð þess hluta stofnsins sem er kynþroska,“ segir Georg Skaret sjávarlíffræðingur í færslu á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Georg Skaret sinnir loðnurannsóknum hjá norsku hafrannsóknastofnuninni.
Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
Stefnir í ágætt verð
Á síðasta fiskveiðiári (2022/2023) lönduðu íslensku skipin 330 þúsund tonnum af loðnu, fiskveiðiárið 2021/2022 náðu þau 522 þúsund tonnum og fiskveiðiárið þar á undan 71,5 þúsund tonnum. Þar á undan var tveggja ára loðnubrestur, en það hafði ekki gerts frá því að loðnuveiðar Íslendinga hófust á sjöunda áratug síðustu aldar að loðnubrestur ætti sér stað tvö ár í röð.
Fari svo að íslensku uppsjávarútgerðirnar fá ekki að veiða loðnu í vetur gæti hæglega farið svo að norskar og rússneskar útgerðir sjá fram á mjög hagstæð verð fyrir loðnuafurðir sínar. Þó bendir fátt til að fást jafn há verð og Íslendingar eiga að venjast þar sem kaupendur loðnuhrogna í Asíu setja hrognin úr Barentshafi ekki í sama gæðaflokk.