Arnarlax hefur gerst bakhjarl íslenska landsliðsins í handbolta, en Björn Hembre forstjóri fiskeldisfyrirtækisins og Guðmundur B. Ólafsson formaður Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) hafa undirritað samkomulag þess efnis. Gert er ráð fyrir að Arnarlax verði meðal bakhjarla HSÍ að minnsta kosti næstu þrjú árin.
Vakin er athygli á að HM kvenna hefst í næstu viku í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og mun Arnarlax hafa frá og með því sitt vörumerki á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Arnarlax.
„Við vitum að handbolti er stór hluti af íslensku íþróttalífi og við gætum ekki verið stoltari en að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem HSÍ er á. Áfram Ísland!“ segir Björn í tilkynningunni.
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir HSÍ þegar við skrifum undir samstarfssamninga við nýja bakhjarla. Flestir bakhjarlar HSÍ í dag hafa verið í bakvarðasveit okkar í yfir áratugi, það er von okkar hjá HSÍ að samstarfið við Arnarlax verði farsælt og ánægjulegt“ er haft eftir Guðmundi.
Stór verkefni framundan
Í tilkynningunni segir að stór verkefni séu framundan hjá HSÍ. „A landsliðs kvenna heldur af landi brott á morgun og tekur liðið þátt í Posten Cup í undirbúningi liðsins fyrir þátttöku sína á HM. Stelpurnar halda svo frá Stavanger þar sem liðið leikur sinn fyrsta leik á stórmóti frá 2012, þann 30. nóvember gegn Slóveníu. HM kvenna mun standa yfir frá 29. nóvember – 17. desember og verður mótið í beinni útsendingu á RÚV.“
Í byrjun janúar heldur karlalandsliðið til Austurríkis þar sem undirbúningur þeirra fyrir EM hefst með tveimur vináttulandsleikjum gegn heimamönnum. Síðan leikur Ísland í C-riðli í Munchen gegn Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi.