Það hefur verið nóg um að vera á veiðarfæraverkstæðum að undanförnu og hefur meðal annars veiðarfæragerð Skinneyjar-Þinganess unnið að yfirferð á loðnunót hjá Ásgrími Halldórssyni SF-250 og farið yfir síldartroll og poka. Auk þess sem smávægilegar viðgerðir hafa verið gerðar um borð í Jónu Eðvalds SF.
Fram kemur í færslu á Facebook-síðu veiðarfæragerðarinnar að haldið hefur verið áfram að koma notuðum veiðarfærum í gáma. Nýverið var níundi gámurinn fylltur og fer hann til endurvinnslu hjá Norfir í Litháen.
„Nýtt troll var smíðað fyrir Sigurð Ólafsson. Þetta var fótreipistroll sem byggt er á gömlum grunni með ýmsu Hornafjarðar tvisti,“ segir í færslunni þar sem vakin er sérstaklega athygli á fallegum lit netsins. „Algert afbragð“.
Töluvert af veiðarfærum eru send til endurvinnslu og hefur veiðarfæragerð Skinneyjar-Þinganes fyllt níu gáma það sem af er ári.
Ljósmynd/Veiðarfæragerð Skinneyjar-Þinganess
Togvíraskipti á Berki
Á dögunum var Börkur NK í togvíraskiptum og strekkingu hjá Hampiðjunni í Neskaupstað og er það þriðja skiptið á stuttum tíma, að því er segir í færslu á Facebook-síðu verkstæðisins.
Þá hafa verið unnar viðgerðir á trolli Margrétar EA sem landaði 1.300 tonnum af síld til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á sunnudag. Að viðgerðunum fyrir Margréti loknum tóku við viðgerðir á trolli Beitis NK.
Börkur NK og Beitir NK við bryggju í Neskaupstað.
Ljósmynd/Hampiðjan Neskaupstað