Stjórnvöld hyggjast stækka svæði þar sem heimilt verður að veiða með dagnót út af Suðurlandi. Landssamband smábátaeigenda (LS) leggst gegn breytingunum og óttast áhrifin á hrygningu nytjastofna, verndun ungviðis og búsvæða.
Drög að breytingum á reglugerð um veiðar með dragnót við Ísland voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 25. október og lauk fresti til að skila umsögnum 8. nóvember. Alls bárust fjórar umsagnir en úrvinnsla þeirra hefur staðið yfir frá þeim tíma.
Breytingin felur í sér að veiðar með dragnót verði heimilar á tveimur svæðum í stað sjö svæða áður, en þrátt fyrir að svæðum þar sem heimilt er að veiða með dragnót fækki mun þekja svæðanna tveggja vera meiri en þessara sjö sem skipt er út.
Lýsa áhyggjum
Í umsögn sinni vekur LS athygli á sjónarmiðum sem Hafrannsóknastofnun lýsti í bréfi í febrúar þar sem sagði: „Skoða þarf sérstaklega hvort áhrif af fyrirhugaðri breytingu á reglugerð hafi áhrif á hrygningu nytjastofna, verndun ungviðis eða búsvæði sem skoða þarf sérstaklega. Jafnframt telur Hafrannsóknastofnun sig ófæra um að taka faglega afstöðu þeirra breytinga á reglugerð sem um ræðir.“
Telur LS óábyrgt að gera umræddar breytingar áður en liggur fyrir „hvort þær hafi neikvæð áhrif á það sem Hafrannsóknastofnun nefnir í bréfi sínu, sem og að stofnunin leggi faglegt mat á þær.“
Vilhelm Henningsson á Hásteini ÁR-8 tekur ekki undir áhyggjur LS. „Ekki eru fiskifræðileg rök fyrir þessum hólfum, meira leifar af einhverju gömlu þegar ágreiningur var á milli útgerðarflokka. […] Dragnót hefur þann sveigjanleika að hægt er að setja svokallaða glugga ofan við poka til að hleypa út smærri fiskum. […] Dragnótin er dregin mun hægar en botntroll og fer fiskurinn út í gegnum opnari möskva fyrir vikið.“