Skipstjóra flutningaskipsins Wilson Hook voru gefnar rangar upplýsingar um dýpið í Ólafsvíkurhöfn við innsiglingu 26. mars, sem gerði það að verkum að skipið strandaði. Skipstjórinn var í sinni fyrstu ferð sem slíkur.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur mikilvægt að skipstjórar fái leiðbeiningar byggðar á þekkingu á aðstæðum og leggur til að Ólafsvíkurhöfn yfirfari verklag við móttöku stórra skipa, að því er fram kemur í skýrslu nefndarinnar.
Í skýrslunni segir að Wilson Hook hafi verið á leið til Ólafsvíkur í hægviðri og sléttum sjó þar sem til stóð að losa saltfarm úr skipinu. Þegar skipið átti um fjóra metra eftir að bryggju tók skipið niðri og stöðvaðist. Skipverjar eru sagði hafa komið upp endum og losnaði skipið einum og hálfum klukkutíma síðar.
Upphaflega stóð til að skipið myndi losa hluta af farminum í Þorlákshöfn en það breyttist og því varð Ólafsvík fyrsta höfn skipsins. Skipstjórinn á Wilson Hook hafði samband við umboðsmann skipsins og upplýsti um djúpristu þess og var djúprista skipsins 5,2 m að framan og 5,8 m að aftan samkvæmt djúpristútreikningum.
Skipið var búið rafrænu sjókorti (ECDIS) og lýst skipstjórinn efasemdum um að nægjanlegt dýpi væri í höfninni fyrir umboðsmanninum, sem m sinn hafði samband við hafnarvörð Ólafsvíkurhafnar sem gaf upp að dýpi í höfninni væri sjö metrar. Hafnarvörðurinn tjáði einnig skipstjóranum að hafnardýpið væri 6,5 til 7 metrar.
Fram kemur að skipstjórinn hafi óskað eftir hafnasögumanni en slíkt var ekki í boði og var honum því sagt að fylgja björgunarskipinu Björgu sem myndi leiðbeina skipinu að bryggju. Gaf hafnarvörður skipstjóranum fyrirmæli um að sigla skipinu nálægt hafnarkantinum og áleit að þar væri nægjanlegt dýpi, en sem fyrr segir reyndist það ekki tilfellið og strandaði skipið á grynningu skammt frá bryggjukantinum.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að miðað við djúpristu skipsins hefði átt að láta skipið bíða þar til sjávarstaða hækkaði. Í hafnarreglugerð fyrir Ólafsvíkurhöfn er ekki kveðið á um hafnsöguskyldu og leggur nefndin til að verklag verði yfirfarið.
Skipið var í kjölfarið kyrrsett af Samgöngustofu og hafnarríkiseftirlitsmönnum gert að framkvæma úttekt á skipinu. Daginn eftir, 27. mars, framkvæmdi flokkunarfélagið DNV neðansjáfarkönnun með kafara og voru sjáanlegar rispur á málningu skipsins en engar skemmdir voru á skipsskrokknum. Var skipinu sleppt 17:30 og hélt það til næstu viðkomuhafnar á Grundarfirði.