Fiskistofa stofnaði til alþjóðlegs samstarfs eftirlitsaðila í fyrra um nýjungar í rafrænni vöktun fiskveiða. Vonað er að vinnan skili aðferðum sem auki skilvirkni eftirlits. Stofnunin á von á öflugum dróna um áramótin sem talið er að verði bylting í eftirliti stofnunarinnar, að því er segir í umfjöllun desemberblaðs 200 mílna.
Á síðasta ári voru 30 ár frá stofnun Fiskistofu og í tilefni af afmælinu kom hugmynd um að hefja nýtt verkefni og var ákveðið að stofna vinnuhóp um nýjungar í rafrænni vöktun fiskveiða með þátttöku fulltrúa frá Kanada, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi, útskýrir Elín B. Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlits stofnunarinnar.
Vinnunni er skipt upp í fjóra hópa og eru í þeim sérfræðingar á hverju sviði frá eftirlitsstofnunum þátttökuríkja.
Myndavélaeftirlit er eins tegund rafrænnar vöktunar.
Ljósmynd/Australian Fisheries Management Authority
Dóróthea Jónsdóttir, deildarstjóri greininga og þróunar á veiðieftirlitssviði Fiskistofu, fer fyrir hópi sem fjallar um áhættustýringu er snýr að því að greina hvar sé mesta hættan á að brot séu framin, en með þeim upplýsingum er hægt að beina eftirlitinu á rétta staði og auka skilvirkni.
„Í mínum hóp erum við að safna gögnum um aðferðir allra aðila sem síðan verða sett í skýrslu sem getur nýst öllum þeim sem taka þátt í mótun áhættugreiningar. Hjá Fiskistofu hyggjumst við nýta upplýsingarnar til að gera áhættustýringuna sjálfvirka og þannig getum við náð betri árangri í gerð eftirlitsáætlunar. Við erum öll að glíma við sama vandamálið sem er takmarkaður mannauður og fjármagn,“ segir hún.
Umfjöllunina má lesa í blaði 200 mílna.