Á löngum og merkilegum ferli hefur Sigurður Tryggvi Konráðsson upplifað frá fyrstu hendi þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslenskum sjávarútvegi og var birt viðtal við hann í desemberblaði 200 mílna. Fyrir tilviljun var hann í lykilhlutverki í að koma á sölu hvalkjöts til Japans.
Árið 1961 hóf Sigurður veiðar á eigin bát, Sólrúnu EA 151, sem hann gerði út með bróður sínum Alfreð og Konráði Sigurðssyni föður þeirra. Um var að ræða 12 tonna dekkbát sem smíðaður var af Kristjáni Nóa Kristjánssyni á Akureyri – Nóa skipasmið eins og hann var kallaður – og var heimahöfn feðganna á Árskógssandi við Eyjafjörð, skammt sunnan við Dalvík.
„Ég hafði þá í nokkur ár verið á sjó á Áskeli frá Grenivík en var orðinn þreyttur á að vera undir annarra stjórn og langaði að vera minn eigin húsbóndi. Svipaða sögu var að segja um föður minn og bróður, og þá var móðir mín ættuð frá Árskógssandi. Vorum við reiðubúin að setjast þar að, og þótti vænlegast að sækja sjóinn því ekki vorum við bændur,“ segir Sigurður glettinn.
Skip útgerðarinnar hafa ýmist fengið nöfnin Sólrún eða Særún en í áranna rás hefur flotinn tekið breytingum í takt við vaxandi eða minnkandi umsvif og allar þær breytingar sem orðið hafa á fiskveiðum á svæðinu. „Við byrjuðum á handfærum fyrsta sumarið og var aflinn saltaður um borð í þessum litla bát, en síðar tókum við að veiða í net og á línu, og loks bættust hrefnuveiðar við,“ útskýrir Sigurður.
Það gerðist nánast fyrir tilviljun að hvalveiðar urðu stór hluti af starfseminni. „Eitt vorið vitjuðum við veiðarfæra úti við Gjögrahrygg og sjáum að þar hafði hrefna flækt sig og synti í hringi. Það var mikið bras, en með hjálp annarra báta náðum við þessu dýri og var það fyrsta hrefnan sem við lönduðum. Við sáum að það var hægt að nota bátinn til hvalveiða og sendum við erindi til Noregs með meðmælum séra Kára Valssonar og reyndist lítill vandi að fá að kaupa skutulbyssu frá Kongsberg sem við settum á bátinn.“
Reyndist Sólrún einkar fjölhæft fley og var hún alla jafna nýtt til netaveiða en þegar sást til hrefnu var hægt að brúka byssuna. „Nokkrum árum síðar leitaði Samband íslenskra samvinnufélaga til okkar og spurði hvort við hefðum áhuga á að selja hrefnukjöt til Japans, og held ég að við höfum verið með þeim fyrstu hér á landi til að selja sjávarafurðir á Japansmarkað.“
Sambandið hélt utan um viðskiptin en japönsku kaupendurnir sendu fulltrúa sína til Íslands ár hvert til að gera úttekt á veiðum og vinnslu feðganna á Árskógssandi. Varði útflutningurinn frá 1978 til 1985 þegar hvalveiðar voru bannaðar. „Það er erfitt að segja til um það með nákvæmni hversu mikið magn við seldum til Japans enda var bókhaldið kannski ekki í jafn föstum skorðum á þessum tíma og það er í dag, en ég man að eitt skiptið fluttum við út 70 tonn af hvalkjöti í einu lagi. Höfðum við þá byggt stóran frystiklefa sem við síðan fylltum af hráefni og tæmdum fyrir eina sendingu. Þegar mest lét veiddum við sennilega á bilinu 60 til 70 hrefnur á ári,“ segir Sigurður en þá hafði félagið eignast stærri bát, 27 tonna, sem í dag er notaður sem hvalaskoðunarbátur og gerður út frá Húsavík.
Japanir eru þekktir fyrir að vera mjög kröfuharðir þegar kemur að sjávarafurðum en Sigurður segir þá aldrei hafa haft neitt út á vöruna að setja, og raunar hafi þeir ekki bara viljað kaupa kjötið af hrefnunum heldur rengið líka. „Benedikt Sveinsson hjá Sambandinu var okkar milliliður þegar Japanirnir komu í heimsókn. Ég talaði bara íslensku en Benedikt gat rætt við Japanina á ensku. Samskiptin voru mjög góð og lutu einkum að því hvernig við flokkuðum kjötið en þeir vildu skipta afurðunum af hrefnunum í tólf eða þrettán flokka.“
Það heyrist á Sigurði að hann minnist þessara ára með hlýju. „Við vorum á netum á veturna, söltuðum sjálfir fiskinn og fluttum út í gegnum SÍF, en með vorinu fórum við yfir í hrefnurnar og var þá meiri vinna í kringum veiðar og vinnslu og hugsa ég að það hafi starfað tuttugu manns hjá útgerðinni þegar mest var að gera. Þetta var mjög góður tími fyrir rekstur félagsins og við fengum mjög gott verð fyrir hvalkjötið, en ég man að fyrir hvert kíló sem við seldum til Japans fengum við jafnmikið greitt og kindakjöt kostaði út úr búð á Íslandi.“
Viðtalið við Sigurð má lesa í desemberblaði 200 mílna.