„Álit umboðsmanns kemur mér ekki á óvart enda í samræmi við þá gagnrýni sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal ég, settum fram á stjórnsýslu ráðherra. Ég stend við það sem ég sagði, að ráðherrann kastaði blautri tusku í andlit stjórnarþingmanna og rýrði það traust sem verður að ríkja milli stjórnarflokka. Álit umboðsmanns ber að taka alvarlega og það getur ekki verið án afleiðinga,“ segir Óli Björn Kárason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið þegar leitað er viðbragða hans við því áliti umboðsmanns Alþingis að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi brotið lög þegar hún bannaði hvalveiðar tímabundið sl. sumar.
Teitur Björn Einarsson alþingismaður segir málið alvarlegt. „Það er alvarlegt að brjóta lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar með þessum hætti, sérstaklega þegar höfð eru í huga atvinnuréttindi sem eru stjórnarskrárvarin grundvallarréttindi fólks. Það er líka alvarlegt að valda fjölda fólks miklu tjóni með þessum hætti og raska verulega lögmætri atvinnustarfsemi sem og að baka ríkinu skaðabótaábyrgð, ef að líkum lætur,“ segir hann.
„Nýlega var gefið fordæmi hjá ráðherra um það hvernig skapa megi sátt og traust um störfin fram undan. Þetta snýst ekki um persónu ráðherrans eða mat hennar á því hvort hún eigi að segja af sér eða ekki, heldur trúverðugleika og traust sem ríkisstjórnarflokkarnir geta lagt til grundvallar áframhaldandi samstarfi um þau verkefni sem þeir hafa komið sér saman um. Það er það pólitíska samtal sem þarf að fara fram.“
Nýtur Svandís þíns trausts?
„Ég sagði í sumar að þetta mál væri henni mikill álitshnekkir. Ég stend við þá skoðun mína,“ segir Teitur Björn.