Teitur Björn Einarsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ástæðu til að ætla að sömu sjónarmið sem réðu því að Bjarni Benediktsson vék úr embætti fjármálaráðherra, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um Íslandsbankasöluna, eiga við stöðu Svandísar Svavarsdóttur sem matvælaráðherra í kjölfar álits umboðsmanns um að ákvörðun um hvalveiðibann síðasta sumar hafi ekki verið í samræmi við lög.
„Álitið er nokkuð afdráttarlaust að mínu mati og kemur ekki á óvart. Þetta er í takti við það sem við í Sjálfstæðisflokknum höfum haldið á lofti frá því í sumar þegar ráðherra setur þessa reglugerð,“ segir Teitur Björn í samtali við 200 mílur.
Hann segir álit umboðsmanns Alþingis staðfesta þá alvarlegu ágalla sem vakið var athygli á síðasta sumar. „Þetta var brot á lögmætisreglu og brot á meðalhófsreglu sem eru að mínu mati alvarleg brot. Ég sé ekki annað en að umboðsmaður taki undir það og segir það skýrum orðum í áliti sínu.“
Er ráðherranum stætt að sitja áfram í ljósi þessa álits?
„Ég sagði það á sínum tíma að miðað við hvernig málatilbúnaður ráðherrans væri – hann væri ekki að fara eftir þeim ráðleggingum og lögfræðilegum álitsgerðum úr ráðuneytinu, kaus að setja málið í þennan búning til að ná fram markmiðum sem voru ekki í samræmi við lög – mikill álitshnekkur fyrir ráðherrann og ég stend við þá skoðun mína sérstaklega í ljósi þessa álits,“ svarar Teitur Björn.
„Það er grafalvarlegt þegar ráðherra misbeitir valdi sínu eins og ráðherrann er nú orðinn uppvís að með reglugerðarsetningu sinni. Valdið fjölda fólks verulegu tjóni, raskað verulega lögmæta atvinnustarfsemi og skapað ríkinu skaðabótaskyldu vegna þess.“
Nú hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vikið úr embætti vegna álits umboðsmanns undir þeim formerkjum að skapa frið um mikilvæg verkefni sem unnið var að innan fjármálaráðuneytisins. Má gera slíka kröfu til matvælaráðherra?
„Það skiptir máli að það sé ríkjandi traust og það er komið fordæmi fyrir því með því hvernig þáverandi fjármálaráðherra ákvað að bregðast við áliti umboðsmanns til þess að skapa frið og traust um þau verkefni sem þar voru undir. Það er það sama sem ég tel að eigi undir í þessum málum.“