Eldgosið í Grindavík hefur víðtæk áhrif á líf íbúa sem og atvinnulíf bæjarins. Eigur fólks eru undir og er uppi mikil óvissa um framtíðina. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Þorbjarnar hf., lætur þó fátt á sig fá og kveðst vongóður um að Grindvíkingar fái um síðir að snúa aftur til bæjarins.
„Auðvitað vitum við það, eins og við upplifðum um helgina að plássið er talsvert laskað og það þarf að athuga öryggið, sérstaklega þar sem sprungurnar eru,“ segir Gunnar.
-
„Það sem brennur heitast á okkur í dag er að koma hita og rafmagni á íbúðarhús og fyrirtæki, ef það er ekki hægt þarf að gera húsin frostklár. Ég veit að almannavarnir og bæjarfélagið er að vinna í því að fá flokk pípulagningarmanna til þess að fara um bæinn og reyna að koma þessu í öruggt skjól áður en frostið kemur, það er væntanlegt harðnandi frost á næstu dögum. Það eru allir í að bjarga málunum til skamms og lengri tíma.“
Vart er hægt að verða meiri Grindvíkingur en Gunnar en hann má rekja ættir sínar nokkuð langt aftur til staðarins. „Ég hef nú grínast með það að ég sé afkomandi Halldórs hertekna sem var tekinn í Tyrkjaráninu 1627, þannig að ég hef ekki farið langt,“ segir hann og hlær.
Hvernig er að sjá bæinn í þessari stöðu?
„Þetta er bara ömurlegt, ömurlegt að horfa upp á þetta og maður finnur hvað maður er vanmáttugur. Sem ungur maður var ég í Vestmannaeyjum sem björgunarsveitarmaður þegar gosið var þar. Þá kynntist maður náttúrulega því hvað fólk gekk í gegnum og maður fylgdist vel með því þar til fólk fór að streyma aftur til Eyja. Maður vonar bara að það verði eins í Grindavík að við förum aftur að streyma til Grindavíkur, maður sér alveg ljósið.“
Það virðist ekki vafi í huga Gunnars um að á einhverjum tímapunkti verði hægt að snúa aftur til bæjarins. Í ljósi þess þykir eðlilegt að spyrja hvort hann sé svona bjartsýnn að eðlisfari?
„Já ég held það,“ svarar Gunnar léttur. „Ég held ég hafi aldrei leyft hinu að komast að.“
Nú eins og þegar gaus nærri Grindavík í desember hefur þurft að stöðva alla vinnslu í húsnæði Þorbjarnar í bænum. Gunnar segir vel hafi tekist að leysa úr þessari áskorun og er það meðal annars því að þakka að aðrar vinnslur hafa verið liðlegar til að aðstoða og viðskiptavinir erlendis sýnt ástandinu skilning.
„Það var vinnsla hjá okkur á föstudag og er búin að vera það sem af er janúar. Við fórum heim á föstudag og ætluðum að halda áfram núna í morgun en úr því varð ekki, þannig að nú er starfsfólkið heima,“ segir hann.
Skip Þorbjarnar landa nú í Hafnarfirði. „Við erum að dreifa aflanum – sumt fer á markað en annað fer í vinnslur sem við höfum samið við að vinna og þá oft til þess að þjóna okkar viðskiptavinum. Þeir s.s. framleiða vöruna og selja viðskiptavinum sem við höfum verið í samskiptum við, þannig erum við að reyna að halda utanum afhendingaröryggið.“
Gunnar tekur þó fram að ekki sé annað til umræðu en að halda áfram rekstri í Grindavík. „Við erum að undirbúa það og vonumst til þess að plássið verði öruggt aftur og við getum haldið áfram.“