Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélags hf., segir ekki alla von úti um að verði loðnuvertíð þó Hafrannsóknastofnun hafi ekki talið ástæðu til að breyta ráðgjöf sinni um engar loðnuveiðar og bindur hann vonir við að mælist loðna í nýtanlegu magni í febrúar.
„Það kemur á óvart að loðnan skuli ekki vera komin lengra. Hún mælist þarna norðvestur af Langanesi en maður er vanur að sjá hana komna lengra austur og suður á boginn,“ svarar Stefán spurður hver fyrstu viðbrögð hans eru við tilkynningu Hafrannsóknastofnunar í dag um niðurstöður vetrarmælingu á loðnustofninum.
Fram kom í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar að mesti þéttleiki fullorðinnar loðnu mældist við hafísröndina á svæðinu út af Horni og austur að Kolbeinseyjarhrygg. Vestan við það svæði fannst aðallega að ókynþroska loðna. Miðað við þessa dreifingu telja vísindamenn stofnunarinnar að ís hafi komið í veg fyrir að náðst hafi að yfirfara allt útbreiðslusvæði loðnunnar og var magnið sem mældist nú af fullorðinni loðnu aðeins um fjórðungur þess sem mældist síðastliðið haust.
Til stendur að framkvæma mælingu á ný í febrúar. „Menn vænta þess að það komi meira undan ísnum og menn fara bara aftur og leita betur. Þeir hafa ekki mælt loðnu hingað til þannig að yrði vertíð en við höfum alltaf haldið í vonina og við gerum það ennþá,“ segir Stefán.
„Það að það sé svo lítið komið þýðir ekki að vertíðin sé að fara forgörðum, þetta snýst um það hvort takist að mæla loðnuna nægilega vel til að gefa út kvóta. Það er búið að vera óvissa í þessum árgangi og það verður áfram. Ég hef enn ekki séð – frekar en aðrir – hvaða magn þeir mældu og hvert stórt hlutfall kynþroska og ókynþroska loðna var á þeim stöðum sem þeir mældu. Maður bíður spenntur eftir því að fá nánari útskýringar á þessum hlutum. Við verðum bara að fara yfir þetta og skoða næstu skref, verðum bara að spyrja að leikslokum.“
Fari svo að loðna mælist í nægilegu magni í febrúar gæti Hafrannsóknastofnun endurskoðað ráðgjöf sína. Gæti það þýtt að loðnuvertíð hefjist það seint að ekki verður hægt að ná miklu magni af hrognafylltri loðnu, en hrognin eru almennt verðmætasta afurð veiðanna.
Stefán segir það hins vegar vera jákvætt merki að loðnan hafi ennþá ekki gengið til suðausturs. „Kannski munum við ná að veiða hana í lengri tíma. Talað er um að þegar hún er í kaldari sjó þroskast hrognin hægar. Það er samt ómögulegt að segja, hún getur farið ansi langt á stuttum tíma þegar hún tekur sig til.“